Innlent

Spell­virkjar skildu eftir sig eyði­­leggingu og brenni­víns­­flöskur í Guð­­mundar­lundi

Kjartan Kjartansson skrifar
Skemmdarvargarnir rifu upp járntunnur og flöttu þær út.
Skemmdarvargarnir rifu upp járntunnur og flöttu þær út. Skógræktarfélag Kópavogs

Miklar skemmdir voru unnar á aðstöðu á útivistarsvæðinu Guðmundarlundi í Kópavogi í nótt. Rústuðu skemmdarvargarnir meðal annars klósetti, brutu bekki og rifu upp þungar öskutunnur. Framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Kópavogs segist telja að „einhvers konar óþroski“ hafi verið á ferðinni.

Guðmundarlundur fyrir ofan Kórahverfi í Kópavogi er eitt fjölsóttasta útivistarsvæðið á höfuðborgarsvæðinu. Kristinn H. Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Kópavogs, segir að þegar fjölskyldu sem ætlaði að njóta útivistar bar þar að garði í morgun hafi allt verið úti í glerbrotum og viðbjóði.

Spellvirkjarnir réðust meðal annars á öskutunnur úr þykku járni og sléttu úr þeim, að sögn Kristins.

„Það hafa verið á ferð kraftmiklir menn því það þarf dálítið mikil átök til þess að skemma svona tunnur. Öskutunnurnar eru úr hnausþykku járni og boltaðar ofan í hellur. Þeir velta upp fjórum sinnum fjórum þykkum hellum þannig að þetta eru gríðarleg átök sem áttu sér stað þarna,“ segir hann við Vísi.

Borð hlutu ekki náð fyrir augum skemmdarskrínanna.Skógræktarfélag Kópavogs
Töluvert virðist hafa fengið á þegar einhver eða einhverjir fóru um með eyðileggingarhendi í Guðmundarlundi í nótt.Skógræktarfélag Kópavogs
Klósettum í Guðmundarlundi var rústað.Skógræktarfélag Kópavogs
Rúður vorur brotnar á gámaklósetti.Skógræktarfélag Kópavogs

Mennirnir brutu bekk og borð, mölvuðu klósett, slitu krana, eyðilögðu innvols í vatnskössum og brutu rúður í gámaklósettum á svæðinu.

„Svo voru bara brennivíns- og bjórflöskur og ýmislegt,“ segir Kristinn.

Lögreglu hefur verið tilkynnt um skemmdarverkin og segir Kristinn að nú sé farið yfir upptökur úr öryggismyndavélum.

„Þetta er ekki á hverjum degi sem þetta gerist en það eru þó af og til alltaf einhverjar skemmdir. En þetta var náttúrulega alveg sorglega mikið í morgun eða nótt eða hvenær sem þeir hafa verið,“ segir hann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×