Innlent

Líkamsárás í austurbænum og trampólín braut stofuglugga

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að hafa afskipti af unglingunum í ökuferð í nótt.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að hafa afskipti af unglingunum í ökuferð í nótt. Vísir/Vilhelm

Skömmu eftir klukkan átta í gærkvöldi barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um líkamsárás í hverfi 108 í Reykjavík.

Að því er segir í dagbók lögreglu var maður að aka öðrum manni sem hann þekkti lítið þegar farþeginn kýldi hann í andlitið, krafði hann um peninga, hótaði honum lífláti og stal síðan rafmagnshlaupahjóli sem var í aftursæti bílsins.

Sá sem fyrir árásinni varð leitaði aðstoðar á slysadeild þar sem lögregla kom og ræddi við hann en ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvort vitað sé hver hinn grunaði er og hvort hann hafi verið handtekinn.

Þá var tilkynnt um tjón á húsnæði í Grafarholti laust eftir klukkan ellefu í gærkvöldi. Þar hafði trampólín fokið á stofuglugga og brotið gluggann.

Skömmu eftir miðnætti stöðvaði lögreglan síðan bíl úti á Seltjarnarnesi þar sem ökumaðurinn ók upp á kantstein, gaf ekki stefnuljós og var ekki með kveikt á ökuljósunum.

Að því er fram kemur í dagbók lögreglu reyndist ökumaðurinn vera fimmtán ára og hefur því aldrei öðlast ökuréttindi. Tveir farþegar voru í bílnum, fjórtán og sextán ára. Málið var afgreitt með aðkomu forráðamanna og tilkynnt til barnaverndar.

Þá var óskað eftir aðstoð lögreglu síðdegis í gær á veitingahúsi í hverfi 103 í Reykjavík. Þar var ölvuð kona sem neitaði að greiða reikninginn. Konan hafði enga peninga meðferðis og verður skýrsla rituð um málið að því er segir í dagbók lögreglu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.