Fótbolti

Ólík örlög síðustu mótherja Íslands á FIFA-listanum: Ísland upp um tvö sæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurinn á Rúmenum kom okkur upp um tvö sæti á FIFA-listanum.
Sigurinn á Rúmenum kom okkur upp um tvö sæti á FIFA-listanum. Vísir/Vilhelm

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu er í 39. sæti á nýjum FIFA-lista sem var kynntur í morgun.

Vísir sagði frá því í síðustu viku að íslenska landsliðið myndi hækka sig á listanum í fyrsta sinn á þessu ári. Ísland fór upp um tvö sæti.

Ísland deilir 39. sæti listans með landsliði Marokkó sem hækkaði sig um fjögur sæti á listanum.

Það eru aftur á móti ólík örlög hjá síðustu mótherja Íslands á nýjasta FIFA-listanum. Rúmenar hröpuðu niður FIFA-listann en Danir eru aftur á móti komnir upp fyrir fjórfalda heimsmeistara Þjóðverja.

Rúmenar töpuðu fyrir Íslandi, Noregi og Austurríki í síðasta landsliðsglugga og falla niður um heil tíu sæti á listanum en engin þjóð á listanum fellur niður um fleiri sæti að þessu sinni.

Danir, sem unnu Ísland á Laugardalsvellinum og England á Wembley, hækka sig aftur á móti um þrjú sæti og eru nú komnir upp í þrettánda sæti. Danir komast meðal annars upp fyrir Þjóðverja sem eru nú í 14. sæti.

Belgar, sem unnu einnig Ísland í Laugardalnum, halda áfram efsta sæti listans og engin breyting er á efstu fimm þjóðunum. Spánverjar komast hins vegar upp um eitt sæti og í sjötta sætið en þeir fara upp fyrir Úrúgvæ á listanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×