Innlent

Fylgjast með hvort kvika sé á flæði undir Krýsuvík

Kristján Már Unnarsson skrifar
Kristín Jónsdóttir, jarðskjálftafræðingur á Veðurstofu Íslands.
Kristín Jónsdóttir, jarðskjálftafræðingur á Veðurstofu Íslands. Stöð 2/Arnar Halldórsson.

Reykjanesskaginn heldur áfram að nötra og hafa sjö skjálftar í dag mælst milli þrjú og fjögur stig. Jarðvísindamenn sjá þó skýr merki þess að dregið hafi úr hrinunni eftir stóra skjálftann í gær. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

Vegagerðin opnaði Djúpavatnsleið á ný í dag en hún lokaðist þegar grjót féllu á veginn í skjálftanum.

Vinnuvél Vegagerðarinnar á Djúpavatnsleið í Reykjanesfjallgarði í dag.Stöð 2/Arnar Halldórsson.

Vegagerðarmenn létu ekki duga að hreinsa burt grjótið sem féll á veginn í gær heldur færðu í leiðinni nokkra steina sem þóttu standa of nærri vegkantinum. Sá sem stýrði hjólaskóflunni, Einar Bjarnason, hafði aldrei áður þurft að moka eftir jarðskjálfta

„Nei, aldrei. Það er gaman að þessu annað slagið,“ sagði Einar, en hnullungarnir voru 7-8 talsins sem lokuðu veginum og aðallega á tveimur stöðum.

Einar Bjarnason, flokksstjóri hjá Vegagerðinni í Hafnarfirði.Stöð 2/Arnar Halldórsson.

Einar, sem er flokksstjóri hjá Vegagerðinni í Hafnarfirði, notaði jafnframt tækifærið til að hreinsa burt steina sem áður höfðu fallið í skjálftum fyrri tíma.

Annar Vegagerðarmaður, Jens Matthíasson, kom svo akandi Djúpavatnsleið frá Suðurstrandarvegi á móti Einari.

„Ég var að athuga hvort það væru fleiri steinar hér á leiðinni eða hvort það væri eitthvað að veginum, frá Suðurstrandavegi og hingað,“ sagði Jens, en kvaðst aðeins hafa tínt smásteina af veginum hér og þar.

„En engir stórir nema bara undir þessari hlíð sem hann var að plokka upp áðan,“ sagði Jens.

Jens Matthíasson, flokksstjóri hjá Vegagerðinni í Hafnarfirði.Stöð 2/Arnar Halldórsson.

Víða nærri upptakasvæði stóra skjálftans í gær sjást merki eftir grjóthrun eins og í hlíð Norðlingaháls.

Virknin hefur færst vestar í dag, nær Grindavík. Við Fagradalsfjall urðu til að mynda tveir skjálftar um sjöleytið í morgun sem fundust meðal annars á Reykjavíkursvæðinu, 3,8 og 3,6 stig að stærð, að sögn Kristínar Jónsdóttur, jarðskjálftafræðings á Veðurstofu Íslands.

„En annars hefur bara dregið mjög mikið úr hrinunni,“ segir Kristín.

Hún útlokar þó ekki annan stóran skjálfta næstu daga.

„En svona samt - þessi hegðun sem við erum að fylgjast með núna er má segja týpísk hegðun fyrir kerfi sem er að jafna sig eftir átök.

Þannig að við skulum bara vona að jörðin taki tíma í það núna aðeins að jafna sig eftir þetta.“

Horft frá Krýsuvík til Seltúns og Kleifarvatns í gær.Arnar Halldórsson

Ein stærsta spurningin er hvort hræringunum á Reykjanesi fylgi landris með kvikuflæði. Kristín segir að mjög greinileg innskot hafi komið við fjallið Þorbjörn fyrr á árinu.

„En ógreinilegri hreyfingar við Reykjanes en alveg hugsanlegt að þar hafi líka verið innskotavirkni.

Og núna við Krýsuvík, eitthvað sem við erum ennþá að fylgjast með.“

Merki um kvikuflæði undir Krýsuvík eru þó óljós.

„Það er svona kannski frekar erfitt að túlka þau og segja alveg af eða á hvort þetta sé til dæmis kvika eða ekki,“ segir Kristín Jónsdóttir.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Líkur á frekari jarðskjálftum nær höfuðborgarsvæðinu

Líkur eru á frekari jarðskjálftum á suðvesturhorninu á næstu árum og þá sérstaklega jarðskjálfta með upptök við Brennisteinsfjöll, sem er töluvert nær höfuðborgarsvæðinu en skjálftinn sem varð í gær.

Krýsuvík næst upptökum og þar fór fólkið hlaupandi út

Jarðskjálftinn sem reið yfir suðvesturhorn landsins laust fyrir klukkan tvö í dag mældist 5,6 stig og var með upptök skammt vestur af Krýsuvík. Ekki er vitað til þess að neinn hafi slasast en í Krýsuvík hljóp fólk út og þar hrundi úr fjöllum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.