Innlent

Vilja starfshóp um aukin atvinnuréttindi erlendra aðila

Samúel Karl Ólason skrifar
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Auk hennar eru olbeinn Óttarsson Proppé, Ari Trausti Guðmundsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Steinunn Þóra Árnadóttir flutningsmenn tillögunnar.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Auk hennar eru olbeinn Óttarsson Proppé, Ari Trausti Guðmundsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Steinunn Þóra Árnadóttir flutningsmenn tillögunnar. Vísir/Vilhelm

Sex þingmenn VG lögðu í dag fram þingsályktunartillögu um að skipaður yrði starfshópur sem gera ætti tillögur um það hvernig auka megi atvinnuréttindi ríkisborgara ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins, EFTA og Færeyja. Í greinargerð ályktunarinnar segir að erfitt sé fyrir það fólk sem um ræðir að fá atvinnu- og dvalarleyfi á Íslandi og vísbendingar séu um að fólk sem hingað leiti í þeim tilgangi reyni aðrar leiðir.

Þar á meðal að sækja um alþjóðlega vernd.

Í greinargerðinni segir að fólksflutningar hafi aukist mjög síðustu ár og þá vegna styrjalda, borgarastríða, skertra mannréttinda og loftslagsvár.

„Nauðsynlegt er að boðið sé upp á ólíkar leiðir fyrir fólk í ólíkum aðstæðum til að setjast að hér á landi, hvort sem það er til skemmri eða lengri tíma. Telja verður að það verði ekki eingöngu þeim til bóta sem óska þess fyrst og fremst að koma hingað til að starfa heldur mun sú þekking og reynsla sem það fólk býr yfir auðga menningu okkar, efnahag og samfélag. Í ljósi þessara sjónarmiða telja flutningsmenn mikilvægt að hafin verði vinna við að kanna breytingar á atvinnuréttindum útlendinga til frambúðar,“ segir í greinargerðinni.

Einnig segir að mikilvægt sé að skoða hvort breyta eigi því fyrirkomulagi að tímabundið atvinnuleyfi fólks sé bundið við tiltekinn atvinnurekanda. Það leiði oft til aukins aðstöðumunar milli atvinnurekenda og starfsmanna.

Starfshópurinn yrði skipaður af félags- og barnamálaráðherra og í honum ættu sæti fulltrúar Alþýðusambands Íslands, BSRB, BHM, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka íslenskra sveitarfélagaforsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis. Formaður hópsins yrði skipaður af ráðherra.

Þá ætti hópurinn að skila tillögum sínum fyrir 1. júní á næsta ári og ráðherra ætti að kynna þær fyrir þingmönnum á haustþingi.

Flutningsmenn tillögunnar eru þau Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Steinunn Þóra Árnadóttir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×