Erlent

Greiddi nemendum til að benda á kennarann

Kjartan Kjartansson skrifar
Jean-Francois Richard, saksóknari í hryðjuverkamálum, greindi frá því í dag að tveir nemendur hefðu aðstoðað morðingjann við að bera kennsl á Paty.
Jean-Francois Richard, saksóknari í hryðjuverkamálum, greindi frá því í dag að tveir nemendur hefðu aðstoðað morðingjann við að bera kennsl á Paty. AP/Lewis Joly

Saksóknarar í Frakklandi halda því fram að morðingi Samuels Paty hafi greitt tveimur nemendum við skólann fyrir að benda honum á hann. Átján ára gamall piltur myrti Paty og afhöfðaði hann, að því er virðist vegna þess að kennarinn hafði sýnt nemendum sínum skopmyndir af Múhammeð spámanni.

Paty, sem var sögukennari, var myrtur á hrottalegan hátt í úthverfi Parísar á föstudag. Átján ára piltur af téténskum uppruna var skotinn til bana af lögreglu skammt frá vettvangi. Morðinginn var ekki nemandi við skólann og virðist hafa lagt land undir fót til að fremja morðið.

Morðinginn er sagður hafa greitt nemendunum um 300 evrur, jafnvirði rúmra 49 þúsund íslenskra króna, fyrir að bera kennsl á Paty fyrir sig. Nemendurnir sögðu lögreglu að morðinginn hafi sagt þeim að hann ætlaði að taka upp myndband af Paty og láta hann biðjast afsökunar á skopmyndunum. Hann vildi niðurlægja kennarann og slá hann, að því er breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir saksóknurunum.

Nemendurnir, sem eru 14 og 15 ára gamlir, eru sagðir hafa beðið með morðingjanum fyrir utan skólann í tvo tíma þar til Paty birtist að skóladeginum loknum. Unglingarnir eru á meðal sjö einstaklinga sem yfirvöld hyggjast sækja til saka vegna morðsins.

Morðið sagt tengjast hatursherferð

Saksóknarar halda því ennfremur fram að morðið á Paty hafi bein tengsl við hatursherferð gegn honum á netinu. Þeir segja að faðir nemanda við skólann hafi hrundið henni af stað. Komið hefur fram að maðurinn og morðinginn hafi skipst á skilaboðum áður en Paty var myrtur.

Paty hafði mátt þola hótanir eftir að hann ræddi við nemendur sínar um tjáningarfrelsi í tíma og sýndi þeim umdeildar skopmyndir af Múhammeð spámanni. Bannað er að teikna myndir eða gera líkneski af spámanninum eða guði samkvæmt kenningum íslams.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.