Erlent

Lög­regla segir Madsen hafa fengið að­stoð við flóttann

Atli Ísleifsson skrifar
Peter Madsen var handtekinn nokkru frá fangelsinu eftir stutta stund á flótta.
Peter Madsen var handtekinn nokkru frá fangelsinu eftir stutta stund á flótta. AP

Lögregla í Danmörku segir að danski morðinginn og uppfinningamaðurinn Peter Madsen hafi notið aðstoðar eins eða fleiri í flóttatilraun sinni úr Herstevester-fangelsinu vestur af Kaupmannahöfn í gær.

Danskir fjölmiðlar greina frá þessu í morgun en Madsen hefur nú verið ákærður fyrir flóttatilraunina, auk þess að hafa hótað starfsmönnum fangelsisins, almennum borgunum og lögreglu.

Í ákæru kemur meðal annars fram að Madsen hafi fengið aðstoð frá einum eða fleiri aðilum við skipulagningu og framkvæmd flóttans. Hann var handtekinn nokkru frá fangelsinu eftir stuttan tíma á flótta.

Madsen á að hafa hótað sálfræðingi sem starfar við fangelsið og tveimur fangavörðum með byssu, sem reyndist ekki vera ekta, og sömuleiðis sagðist hann vera með sprengiefni í belti, en það reyndist heldur ekki vera ekta. 

Hann er sömuleiðis ákærður fyrir að hafa hótað almennum borgara þegar hann settist inn í hvítan vörubíl og hrópað að bílstjóranum: „Keyrðu, keyrðu, keyrðu. Annars skýt ég þig.“

Madsen játaði sök í öllum ákæruliðum í morgun. Dómarar hafa ákveðið að málið verði rekið fyrir luktum dyrum þar sem meðverkamenn Madsen gangi enn lausir. 

Madsen var dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 2018 fyrir morðið á sænsku blaðakonunni Kim Wall . Hann hafði boðið Wall um borð í heimasmíðaðan kafbát sinn og í siglingu að kvöldi 10. ágúst 2017. Hún skilaði sér hins vegar ekki í land og hófst þá mikil leit í Køge-flóa. Líkamspartar Wall fundust svo á hafsbotni eftir umfangsmikla leit.

Uppfært kl 10:30: 

BT greinir frá því að Madsen hafi verið úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald.


Tengdar fréttir

Madsen var með gervisprengjubelti

Danski morðinginn og uppfinningamaðurinn Peter Madsen hefur verið ákærður fyrir að reyna að flýja úr fangelsi eftir flóttatilraun hans í dag.

Peter Madsen reyndi að flýja úr fangelsi

Danski morðinginn Peter Madsen reyndi að flýja úr fangelsi í morgun. Ekstra bladet greinir frá þessu í morgun og birtir myndir af Madsen þar sem situr í grasi í vegarkanti í Albertslund, um 400 til 500 metrum frá fangelsinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×