Erlent

Rússar neita ásökunum um tölvuárásir á Ólympíuleika

Kjartan Kjartansson skrifar
Rússnesk stjórnvöld hafa haft horn í síðu Ólympíuleikanna eftir að þeim var gerð refsing fyrir umfangsmikla ólöglega lyjfanotkun íþróttamanna.
Rússnesk stjórnvöld hafa haft horn í síðu Ólympíuleikanna eftir að þeim var gerð refsing fyrir umfangsmikla ólöglega lyjfanotkun íþróttamanna. Vísir/EPA

Sendifulltrúar Rússlands í Bandaríkjunum hafna ásökunum bandarískra og breskra stjórnvalda um að rússneska leyniþjónustan hafi staðið að fjölda tölvuárása, þar á meðal til þess að setja Ólympíuleikana í Tókýó úr skorðum.

Sex Rússar sem starfa fyrir rússnesku herleyniþjónustuna GRU er ákærðir fyrir röð tölvuárása undanfarin ár. Bandaríska dómsmálaráðuneytið kynnti ákærurnar í gær en þær beinst meðal annars að árásum á orkudreifikerfi Úkraína og forsetaframboð Emmanuels Macron í Frakklandi í aðdraganda kosninga árið 2017.

Rússnesk yfirvöld hafa iðulega borið af sér allar sakir og ásakanirnar nú voru engin undantekning. Ríkisfréttastofan RIA hefur eftir embættismanni í rússneska sendiráðinu í Washington-borg að þær hafi „augljóslega“ ekkert með raunveruleikann að gera og þeim sé ætlað að „ala á andúð á Rússum í bandarísku samfélagi og að leiða til nornaveiða og njósnaótta“.

Í ákærunni í Bandaríkjunum eru tölvuárásir GRU sagðar hafa beinst að þeim sem hafi gagnrýnt rússnesk stjórnvöld, jafnt fyrrverandi Sovétlýðveldi sem vestræn ríki. Bresk stjórnvöld sökuðu í framhaldinu sömu sveit manna innan GRU um að reyna að brjótast inn í tölvur einstaklinga og stofnana sem tengjast Ólympíuleikunum og Ólympíuleikum fatlaðra í Tókýó sem áttu að fara fram á þessu ári, að sögn Washington Post.

Innbrot rússnesku leyniþjónustunnar í tölvukerfi fyrirtækis sem tengdist Vetrarólympíuleikunum árið 2018 er sagt hafa verið hefnd rússneskra stjórnvalda eftir að Alþjóðaólympíunefndin bannaði Rússum að senda lið þegar upp komst um umfangsmikla og kerfisbundna lyfjamisnotkun rússneskra íþróttamanna.

Tölvuþrjótar rússnesku leyniþjónustunnar eru einnig sakaðir um að hafa staðið að gíslatökuspilliforritinu NotPetya sem sérfræðingar telja skaðlegustu tölvuárás frá upphafi. Hugbúnaðurinn læsti meðal annars tölvum á sjúkrahúsum, stofnunum og fyrirtækjum í Bandaríkjunum. Tjónið var metið á milljarða dollara, jafnvirði hundruð milljóna íslenskra króna.

Einn rússnesku leyniþjónustumannanna var einnig ákærður í rannsókn Roberts Mueller, sérstaka rannsakanda bandaríska dómsmálaráðuneytisins, fyrir að hafa reynt að brjótast inn í kosningakerfi í Bandaríkjunum fyrir forsetakosningarnar árið 2016.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×