Innlent

Hátt í þrjú hundruð börn í leyfi vegna Covid: „Við viljum fá þau sem fyrst í skólann“

Nadine Guðrún Yaghi skrifar

Skólayfirvöld í Reykjavík hafa áhyggjur af fjölda barna sem eru í leyfi frá skóla vegna kórónuveirunnar, af öðrum ástæðum en að vera í einangrun eða sóttkví. Gengið verði fastar á eftir því að börn mæti í skólann eftir vetrarfrí.

Tæplega fjögur hundruð reykvísk börn á grunnskólaaldri voru í sóttkví fyrir helgi. Þá er annar hópur barna sem ekki mætir í skólann þessa dagana en 263 börn á grunnskólastigi í Reykjavík eru leyfi frá skóla vegna veirunnar.

„Þegar fyrirmælin komu um herðingar fór þessum leyfisbeiðnum að fjölga. Þær fóru úr því að vera fimmtíu í byrjun október og yfir í að vera 260 núna,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Ástæðurnar geti verið margar, til dæmis hræðsla fólks við smit eða að eldra fólk eða fólk í áhættuhópi búi á heimilinu.

Sækja þarf um leyfi frá skóla með formlegum hætti og rökstyðja hvers vegna óskað er eftir leyfi, enda skólaskylda í landinu.

„Freldrar kvitta undir að þeir beri ábygð á námsframvindu barnanna og svo eru kennararnir okkar að vinna með þessum fjölskyldum þannig að börnin haldi takti en auðvitað viljum við fá þau sem fyrst í skólann,“ segir Helgi.

Reynt sé að fylgjast með börnunum en ógerningur sé að vita hversu virk börnin eru í námi sínu. Helgi segir að hópur barna hafi ekki mætt í skólann vikum saman í vor og segir líklegt að einhver hluti þeirra sé aftur í leyfi núna.

„Fyrir hvert barn sem missir úr skóla er það slæm staða en við höfum ákveðinn skilning á meðan hápunkturinn gengur yfir. En svo um leið og að við sjáum að bylgjan er að ganga niður, sem við bindum miklar vonir við að verði í næstu viku, förum við að fylgja fastar á eftir því að börnin séu að koma í skólann,“ segir Helgi og bætir við að eftir vetrarfrí muni skólastjórnar og kennarar hafa samband við foreldra og undirstrika skólaskylduna. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×