Innlent

Smitaðir í Norrænu fóru frá borði í Færeyjum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Norræna í höfn á Seyðisfirði.
Norræna í höfn á Seyðisfirði. Vísir/JóiK

Tveir í áhöfn Norrænu, sem von er á til Seyðisfjarðar í fyrramálið, greindust smitaðir skömmu eftir að ferjan lagði úr höfn frá Hirtshals í Danmörku á laugardag.

Lögreglan á Austfjörðum segir að strax hafi verið gerðar ráðstafanir varðandi einangrun þeirra auk þess sem ellefu áhafnarmeðlimir aðrir þurftu að fara í sóttkví.

Allir þrettán fóru frá borði við komu til Færeyja þar sem sóttkví hélt áfram og tvímenningarnir fengu aðhlynningu. Þeir eru ekki með einkenni smits og ekki talin ástæða til að ætla að farþegar hafi smitast.

Áhöfn Norrænu sem hélt áfram til Íslands var skimuð í Færeyjum og liggur niðurstaða fyrir. Enginn greindist með smit.

„Sýni verða tekin af öllum farþegum samkvæmt venju við komu til Seyðisfjarðar sem svo verða í sóttkví þar til niðurstaða liggur fyrir í seinni skimun að fimm til sex dögum liðnum. Öllu verklagi verður því fylgt hér á landi samkvæmt venju en sérstök aðgát viðhöfð engu að síður í ljósi þessa,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×