Innlent

Telur þingsályktun um Reykjavíkurflugvöll „veikburða og asnalega“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
„Undirritaður er þingmaður Suðurkjördæmis, íbúi í 101 Reykjavík, flugmaður og andstæðingur sýndarstjórnmála,“ skrifar Smári McCarthy, þingmaður Pírata, undir færslu sína sem hann birti á Facebook í dag.
„Undirritaður er þingmaður Suðurkjördæmis, íbúi í 101 Reykjavík, flugmaður og andstæðingur sýndarstjórnmála,“ skrifar Smári McCarthy, þingmaður Pírata, undir færslu sína sem hann birti á Facebook í dag. Vísir/Vilhelm

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, gefur lítið fyrir hugmyndir þingmanna sem vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Smári segir að sá hópur þingmanna sem standi að þingsályktunartillögu þess efnis hafi áður gerst sekir um að vanvirða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Það verður ekki hægt að taka mark á þeim í þessu,“ skrifar Smári í færslu á Facebook síðu sinni í dag. Hann telji þetta vera tillögu „Sameinaðs Íhalds“ sem sé í senn „veikburða og asnaleg.“

Fréttastofa greindi frá því í gær að helmingur þingmanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, bróðurpartur þingmanna Miðflokksins, báðir þingmenn Flokks fólksins og einn þingmaður Vinstri grænna, hafi lagt fram þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

„Það liggja fyrir samningar, sem vantar að sé staðið við, og flugvöllurinn er ekki að fara neitt hvort eð er fyrr en annar amk jafn góður er kominn í gagnið sem uppfyllir öll hlutverk Reykjavíkurflugvallar gagnvart sjúkraflugi, kennsluflugi, almannaflugi, einkaflugi, útsýnisflugi og störfum landhelgisgæslunnar, ásamt því að vera ásættanlegur varavöllur fyrir Keflavík,“ skrifar Smári.

Hann telji umræðuna byggja á ómálefnalegum skotgrafarhernaði og segir hættu vera á að „spila asnalega pólitíska leiki með þetta mál,“ líkt og það er orðað í færslu Smára sem virðist lítt hrifinn af tillögunni.

Málið þurfi að hans mati engu að síður að leysa en hann sé á þeirri skoðun að innanlandsflugvöllur í Reykjavík hafi mikilvægu hlutverki að gegna. „Það er ekki lykilatriði hvar nákvæmlega hann er, svo lengi sem hann er vel nothæfur og þjónar sínum hlutverkum. Vilji fólk hann burt úr Vatnsmýrinni þarf að finna annan stað og byrja að byggja. Og aðrir ættu að hætta að þvælast fyrir þeirri vinnu af ótta við að missa núverandi flugvöll, því það er ljóst, svo ég endurtaki mig, að hann fer ekki neitt fyrr en annar er kominn,“ skrifar Smári.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.