Fótbolti

Sara Björk skoraði er Lyon vann sjötta leikinn í röð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur hennar fagna sigri í Meistaradeild Evrópu á síðustu leiktíð.
Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur hennar fagna sigri í Meistaradeild Evrópu á síðustu leiktíð. VÍSIR/GETTY

Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir var á varamannabekk Lyon er liðið fékk Guingamp í heimsókn í frönsku úrvalsdeildinni. Það kom ekki að sök, Sara Björk kom inn af bekknum og skoraði í 4-0 sigri liðsins.

Lyon hefur farið frábærlega af stað eins og við var að búast enda ríkjandi meistarar bæði í Frakklandi sem og Evrópu. Liðið var þó nokkuð lengi af stað í leik kvöldsins og voru aðeins einu marki yfir í hálfleik. Markið skoraði Amandine Henry á 37. mínútu. 

Staðan var enn 1-0 er Sara Björk kom inn af bekknum á 63. mínútu og aðeins átta mínútum síðar var hún orðin 2-0 þökk sé marki Amel Majri.

Aðeins tíu mínútum eftir að Sara Björk kom inn af bekknum var hún búin að skora þriðja mark liðsins. Amel Majri bætti svo við fjórða markinu áður en leiknum lauk.

Öruggur 4-0 sigur því staðreynd og Lyon enn með fullt hús stiga þegar sex umferðum er lokið. Paris Saint-Germain er fimm stigum á eftir meisturunum og á leik til góða. Þær eru einnig taplausar og gæti verið að Lyon þurfi að hafa fyrir því að landa sigri í frönsku deildinni að þessu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×