Enski boltinn

Meiddi samherja til að reyna að komast í aðallið Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tom Brewitt í leik með unglingaliði Liverpool. Draumur hans að spila fyrir aðallið félagsins rættist ekki.
Tom Brewitt í leik með unglingaliði Liverpool. Draumur hans að spila fyrir aðallið félagsins rættist ekki. getty/Nick Taylor

Tom Brewitt, sem var á mála hjá Liverpool í áratug, viðurkennir að hafa beitt öllum brögðum til auka líkurnar á að spila fyrir aðallið félagsins. Hann gekk meira að segja svo langt að meiða liðsfélaga sinn.

Brewitt rifjaði upp aðdraganda bikarleiks Liverpool og Exeter City í upphafi árs 2016 í hlaðvarpinu Football Journeys og hvernig hann gerði allt til að fá að spila í rauðu treyjunni.

„Sama hvað þurfti, ég var tilbúinn að gera það. Jafnvel þótt ég þyrfti að meiða einhvern. Ég þráði ekkert meira en að spila,“ sagði Brewitt.

Hann taldi að helsti keppinautur sinn um stöðu í byrjunarliði væri Darren Cleary og Brewitt lét til skarar skríða á æfingum í aðdraganda bikarleiksins.

„Ég ákvað að það væri annað hvort ég eða hann svo ég fór í hann á æfingum. Á æfingum milli jóla og nýárs var ég alltaf nálægt honum á æfingum og sparkaði bara í hann. Ég ætlaði ekki að meiða hann alvarlega en samt nógu mikið svo hann yrði óleikfær og ég gæti spilað,“ sagði Brewitt. 

Að sögn Brewitts var Cleary á hækjum í tvær vikur eftir harða tæklingu hans á æfingum. Hann kvaðst ekki vera stoltur af þessu en sagði að hann hefði bara þurft að taka Cleary út úr myndinni.

Brewitt spilaði reyndar ekki umræddan leik gegn Exeter því hann fékk heilahristing á æfingu fjórum dögum fyrir leikinn.

Draumur Brewitts um að leika fyrir aðallið Liverpool rættist aldrei og hann yfirgaf félagið 2017. Hann er núna án félags eftir að samningur hans við D-deildarliðið Morecambe rann út.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.