Íslenski boltinn

Markadagar Vindsins héldu áfram og hér má sjá öll mörk Birkis Más

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birkir Már Sævarsson fagnar marki með Val og íslenska landsliðinu.
Birkir Már Sævarsson fagnar marki með Val og íslenska landsliðinu. Vísir/Vilhelm

Birkir Már Sævarsson hefur heldur betur verið á skotskónum með liðum sínum að undanförnu og það breyttist ekki þegar hann fékk tækifæri með íslenska landsliðinu á móti toppliði heimslistans í gær.

Birkir Már Sævarsson skoraði sitt annað landsliðsmark og það fyrsta í rúm fjögur ár þegar hann jafnaði metin á móti Belgíu á Laugardalsvellinum.

Birkir Már kláraði færið eins og háklassa framherji og hann hefur spilað eins og slíkur að undanförnu þrátt fyrir að vera í hlutverki bakvarðar með bæði Val og íslenska landsliðinu.

Birkir Már skoraði fjögur mörk í síðustu fjórum leikjum Valsliðsins áður KSÍ setti Íslandsmótið á frost. Hann fékk ekki að spila í tveimur fyrstu leikjunum í glugganum en var ekki lengi að nýta tækifærið þegar það gafst í gær.

Birkir skoraði eitt mark í 5-1 sigri á Stjörnunni og tvö mörk í 4-1 sigri á FH. Hann tryggði síðan Valsmönnum 1-1 jafntefli á móti Blikum með marki í blálokin.

Birkir Már skoraði þar með jafnmörg deildarmörk á einni viku og hann hafði gert samanlagt á tveimur heilum tímabilum þar á undan. Birkir skoraði 2 mörk í Pepsi Max deildinni bæði sumrin 2018 og 2019.

Hér fyrir neðan má sjá myndband með markadögum Vindsins Birkis Más Sævarssonar.

Klippa: Markaveisla Birkis



Fleiri fréttir

Sjá meira


×