Innlent

Rændi bensínstöð og komst undan á rafskútu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Lögregla hafði hendur í hári mannsins skömmu síðar. 
Lögregla hafði hendur í hári mannsins skömmu síðar.  Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Nokkuð var um að lögreglan hefði afskipti af þjófnaðarmálum í gærkvöldi. Einn var handtekinn eftir að hafa stolið vörum og ráðist á starfsmann á bensínstöð í miðbæ Reykjavíkur. Hann komst undan á rafskútu en lögreglan hafði hendur í hári hans síðar þar sem hann reyndi að yfirgefa verslun á Fikislóð með fulla körfu af vörum.  Hann var stöðvaður af starfsfólki, en réðist á það við afskiptin.

Í millitíðinni hafði hann lent í útistöðum við leigubílstjóra úti á Granda eftir að hann neitaði að borga reikninginn. Hann mun hafa hótað bílstjóranum en var flúinn þegar lögreglu bar að garði. Að sögn lögreglu hefur maðurinn ítrekað verið tilkynntur fyrir ýmis brot, og fékk að gista í fangageymslu lögreglu.

Þá var tilkynnt um innbrot í verslun, einnig í miðborginni. Einn maður var handtekinn vegna málsins og færður í fangageymslu.

Fjöldi annarra smærri mála kom til kasta lögreglu og þá voru afskipti höfð af ölvuðu pari í fjölbýlishúsi í Reykjavík. Svo virðist sem parið hafi verið að brugga í húsinu og var það grunað vegna þess, auk þess sem maðurinn var handtekinn grunaður um líkamsárás og konan fyrir að tálma störf lögreglu og fara ekki að fyrirmælum. Bæði voru færð í fangageymslu og verður mál þeirra rannsakað í framhaldinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.