Innlent

Bæta við einni hæð fyrir fólk í einangrun

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hótel Lind hefur hingað til verið fyrir sjúklinga í einangrun og Hótel Rauðará fyrir fólk í sóttkví en nú er Hótel Lind að fyllast. Því þarf að nýta 4. hæðina á Hótel Rauðará fyrir sjúklinga í einangrun.
Hótel Lind hefur hingað til verið fyrir sjúklinga í einangrun og Hótel Rauðará fyrir fólk í sóttkví en nú er Hótel Lind að fyllast. Því þarf að nýta 4. hæðina á Hótel Rauðará fyrir sjúklinga í einangrun. Vísir/Vilhelm

Rauði krossinn hefur útbúið 4. hæðina á Hótel Rauðará fyrir einangrun sjúklinga sem eru með Covid-19.

Hingað til hefur Hótel Rauðará verið fyrir fólk í sóttkví og þá aðallega hælisleitendur. Hótel Lind hefur aftur á móti verið nýtt fyrir Covid-19-sjúklinga sem geta af einhverjum ástæðum ekki verið heima hjá sér.

Morgunblaðið greinir frá í dag og hefur eftir Gylfa Þór Þorsteinssyni, umsjónarmanni farsóttarhúsa hjá Rauða krossinum, að hæðin á Hótel Rauðará verði tekin í notkun þegar þörf verður á. Það gæti orðið í dag.

Alls voru 86 gestir í farsóttarhúsunum í gær, þar af 63 í einangrun og 23 í sóttkví. Starfsemin er á fyrrnefndum hótelum en Gylfi Þór segir tímaspursmál hvenær Hótel Lind fyllist af sjúklingum í einangrun og taka þurfi 4. hæðina á Hótel Rauðará í notkun.

Álagið í farsóttarhúsunum hefur verið mun meira í þessari bylgju faraldursins heldur en þeirri fyrstu í vor. Fjölgað hefur verið um tvo starfsmenn og eru þeir nú átta en Gylfi segir í samtali við Morgunblaðið að þörf kunni að vera á því að fjölga starfsfólki enn frekar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×