Erlent

Lögreglumaður sem átti þátt í dauða George Floyd laus gegn tryggingu

Kjartan Kjartansson skrifar
Til vinstri má sjá mótmæli sem brutust út og til hægri er fangamynd af Derek Chauvin. Á myndbandi sem náðist af dauða Floyd sást Chauvin láta orð hans um að hann næði ekki andanum sér sem vind um eyru þjóta.
Til vinstri má sjá mótmæli sem brutust út og til hægri er fangamynd af Derek Chauvin. Á myndbandi sem náðist af dauða Floyd sást Chauvin láta orð hans um að hann næði ekki andanum sér sem vind um eyru þjóta. AP/lögreglustjórinn í Hennepin-sýslu

Fyrrverandi lögreglumaður sem er ákærður fyrir drápið á George Floyd í Minneapolis fyrr á þessu ári var sleppt úr fangelsi gegn tryggingu í gær. Ríkisstjóri Minnesota kallaði út þjóðvarðliðið til þess að halda friðinn ef til mótmæla kæmi.

Derek Chauvin, sem þá var lögreglumaður, þrýsti hné sínu á háls Floyd í níu mínútur þrátt fyrir að fyrir að Floyd segðist ekki ná andanum. Floyd var handjárnaður. Myndband náðist af því þegar Floyd lést í haldi Chauvin og þriggja annarra lögreglumanna 25. maí. Dauði Floyd varð kveikjan að mikilli mótmælaöldu í Bandaríkjunum og víðar um heim gegn lögregluofbeldi og kerfislægri kynþáttahyggju.

AP-fréttastofan segir að Chauvin hafi lagt fram milljóna dollara, jafnvirði um 139 milljóna íslenskra króna, í tryggingu og honum hafi í kjölfarið verið sleppt úr fangelsi í Hennepin-sýslu rétt fyrir hádegi að staðartíma í gær. Ekki er ljóst hvar hann fékk fjármunina til þess.

Chauvin og félagar hans þrír voru reknir úr lögreglunni. Hann er ákærður fyrir morð og manndráp. Hinir lögreglumennirnir þrír eru ákærðir fyrir að aðstoða Chauvin við drápið. Lögmenn Floyd-fjölskyldunnar sögðu tíðindin „sársaukafulla áminningu“ um að réttlætið væri langt frá því að ná fram að ganga.

Eftir að fréttir af því að Chauvin hefði verið sleppt úr haldi bárust út kallaði Tim Walts, ríkisstjóri Minnesota, út þjóðvarðliðið til að aðstoða lögregluna ef til mótmæla kæmi. Hundruð manna komu saman á götum Minneapolis í gærkvöldi og kyrjuðu meðal annars „Ekkert réttlæti, enginn friður, sækið lögregluna til saka“.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×