Innlent

Heldur áfram að brjóta á konum á Vestfjörðum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Vestfjarða í morgun.
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Vestfjarða í morgun. Vísir/Vilhelm

Karlmaður á Vestfjörðum hefur verið dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa gripið tvisvar utanklæða um brjóst konu á skemmtistað á Ísafirði. Þá þarf hann að greiða konunni 200 þúsund krónur í miskabætur.

Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Vestfjarða í morgun. Karlmaðurinn játaði brot sitt undanbragðalaust og var málið því dómtekið án frekari sönnunarfærslu.

Í niðurstöðu héraðsdóms er bent á að karlmaðurinn hlaut dóm fyrir rúmu ári fyrir blygðunarsemi. Þá fyrir að hafa sýnt gesti á heimili sínu nektarmyndir af konu. Myndirnar sýndi hann viðkomandi á sjónvarpsskjá en á þeim lá konan nakin í rúmi sumarið 2018.

Maðurinn hlaut 30 daga fangelsisdóm fyrir brot sitt þá en dómurinn var skilorðsbundinn til tveggja ára. Aðeins rúmt ár er frá því sá dómur var kveðinn upp og því rauf karlmaðurinn skilorð.

Héraðsdómur tók því upp skilorðsdóminn og dæmdi karlmanninn í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára. Konan fór fram á 1,5 milljónir króna í miskabætur en héraðsdómur dæmdi henni 200 þúsund krónur og vísaði til dómafordæma.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×