Fótbolti

Katrín „væntir þess“ að leikur Ís­lands og Rúmeníu fari fram á fimmtu­daginn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Katrín reiknar með að leikurinn fari fram.
Katrín reiknar með að leikurinn fari fram. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, sagði nú rétt í þessu að leikur Íslands og Rúmeníu á fimmtudaginn muni að öllum líkindum fara fram. Þetta sagði hún í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Ég vænti þess að leikurinn geti farið fram en að við þurfum að horfa á hann í sjónvarpinu,“ sagði Katrín í samtali við Heimi Má Pétursson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Ísland og Rúmeníu mætast í umspili um laust sæti á EM næsta sumar en leikurinn er undanúrslitaleikur. Sigurvegarinn mætir annað hvort Ungverjalandi eða Búlgaríu í úrslitaleiknum.

„Það fer eftir því hvað kemur til með að standa í endanlegu reglugerðinni varðandi íþróttastarf,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn í dag, er hann var spurður út í landsleikinn í dag. Þá átti einnig eftir að fara yfir hversu mikilvægur leikurinn væri samfélaginu.

„Það hafa verið veittar undanþágur í reglugerðunum hingað til vegna samfélagslega mikilvægra aðgerða. Það má örugglega deila um það hversu mikilvægur fótboltaleikur er. Okkur hefur verið gerð grein fyrir því af knattspyrnusambandinu að þarna sé leikur þar sem að milljarðar króna séu í húfi, þannig að það getur verið ansi samfélagslega mikilvægt mál. Það verður auðvitað skoðað í framhaldinu,“ sagði Víðir.

UEFA greiðir hverju knattspyrnusambandi sem kemur liði á EM 9,25 milljónir evra, jafnvirði 1,5 milljarðs króna. Fyrir hvern sigur í riðlakeppni fæst 1,5 milljón evra og 750 þúsund evrur fyrir jafntefli, og með því að komast lengra á mótinu fæst sífellt hærri upphæð. Mest er hægt að fá samtals 34 milljónir evra með því að vinna EM, bara með vinningsfé frá UEFA.

Vonir stóðu til að 900 stuðningsmenn gætu mætt á landsleikinn á fimmtudag en Þórólfur kvaðst á fundinum í dag mæla með 20 manna samkomutakmörkunum, eingöngu með undantekningum fyrir útfarir og skólastarf. Því eru litlar sem engar líkur á að engir áhorfendur verði á leiknum.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×