Innlent

Um tuttugu smitaðir eftir æfingar hjá Hnefa­leika­fé­lagi Kópa­vogs

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Æfingasalur Hnefaleikafélags Kópavogs.
Æfingasalur Hnefaleikafélags Kópavogs. Facebook/Hnefaleikafélag Kópavogs

Iðkandi í Hnefaleikafélagi Kópavogs greindist með kórónuveiruna á fimmtudag. Um tuttugu smit hafa nú verið rakin til félagsins eftir æfingar helgina áður. Þetta staðfestir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í samtali við fréttastofu.

Hnefaleikafélag Kópavogs greinir sjálft frá smiti iðkanda í Facebook-færslu í gær. Þar segir að eftir að iðkandinn greindist með veiruna á fimmtudag hafi verið gripið til viðeigandi ráðstafana innan félagsins samstundis. Þeim sem verið hefðu í húsakynnum félagsins við Smiðjuveg í Kópavogi vikuna á undan hafi verið tilkynnt um smitið og félaginu lokað á meðan unnið væri að smitrakningu.

Fleiri hafi greinst með veiruna í kjölfarið en ekki kemur fram í færslu Hnefaleikafélagsins hversu margir það eru. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn staðfestir í samtali við fréttastofu nú um hádegisbil að u.þ.b. tuttugu smit megi rekja til stöðvarinnar eftir æfingar á föstudag og laugardag síðustu helgi septembermánaðar, tæpri viku áður en fyrsta smitið greindist.

Hnefaleikafélag Kópavogs verður lokað næstu tvær vikurnar. Félagið biðlar til allra sem finna fyrir einkennum að hafa strax samband við heilsugæslu eða hringja í síma 1700. Þá biður félagið þá sem verið hafa í húsakynnum þess að útbúa greinargóðan lista yfir þá sem þeir hafa verið í návígi við „til að minnka líkur á frekari útbreiðslu og létta undir álagi smitrakningarteymis og almannavarna.“

„Einnig biðjum við þá sem finna ekki fyrir einkennum en hafa verið í húsinu eða návígi við einhvern iðkanda að kanna möguleika á að fara í sýnatöku,“ segir í færslu félagsins.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að margir hafi smitast af veirunni á vinnustöðvum, innan fjölskyldna og vinahópa sem geri sér glaðan dag. Einnig væri talsvert um smit á líkamsræktarstöðvum og á krám. Þá nefndi Þórólfur einnig sérstaklega að rekja mætti smit til hnefaleikastöðvar í Kópavogi.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.