Innlent

Björguðu fjórum í fiskibát austur af Papey

Sylvía Hall skrifar
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út. 
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út.  Vísir/Vilhelm

Fjórum skipverjum á fiskiskipi var bjargað í kvöld eftir að skipið tók niðri á grynningu austur af Papey í kvöld. Leki hafði komið að skipinu en neyðarkall barst frá áhöfninni klukkan 20:55.

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og sjóbjörgunarsveitir slysavarnafélagsins Landsbjargar á Suðaustur- og Austurlandi voru kallaðar út á mesta forgangi en þyrla Landhelgisgæslunnar var á æfingu þegar útkallið barst. Tók þyrlan rakleiðis stefnu á slysstað.

Óskað var eftir því að bátar og skip í grenndinni myndu halda á staðinn.

Klukkan 21:20 hafði tekist að bjarga öllum skipverjunum um borð í fiskibát sem kom á staðinn. Skip sem mun aðstoða við drátt á fiskiskipinu er væntanlegt á slysstað.

Uppfært klukkan 22:18:

Verið er að draga fiskibátinn áleiðis til Djúpavogs og verður reynt að halda honum á floti með dælum um borð. Hafdís, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, er komið á staðinn.

Björgunarskip frá Hornafirði og Neskaupsstað hafa verið afturkölluð.

Þyrla Landhelgisgæslunnar er í viðbragðsstöðu á Hornafirði á meðan björgunarstörfum stendur og hefur Umhverfisstofnun verið upplýst um málið. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×