Innlent

„Þetta er auðvitað áfall fyrir okkur eins og aðra“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri.
Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri. Þjóðleikhúsið/Hari

„Þetta er auðvitað áfall fyrir okkur eins og aðra en skiljanlegt í ljósi stöðunnar. Við bara vinnum úr þeirri stöðu og vonum það besta fyrir okkur öll,“ segir Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri, um hertar samkomutakmarkanir sem viðbúið er að taki gildi eftir helgi.

„Þetta er svo nýkomið fram og á eftir að koma í ljós hvernig þetta útfærist og ég vonast til þess að það verði tekið tillit til starfsemi menningarstofnana þannig að mögulega verði hægt að halda áfram að æfa og vinna í húsunum og mögulega sýna með einhverjum takmörkunum,“ segir Magnús Geir.

Of snemmt sé að segja til um það hvað nákvæmlega verði en leikhúsið muni áfram hafa samráð við heilbrigðisyfirvöld hér eftir sem hingað til. Sýningar voru aftur farnar af stað í leikhúsunum eftir umfangsmiklar samkomutakmarkanir á fyrri stigum faraldursins sem höfðu umtalsverð áhrif á starfsemi leikhúsanna líkt og á aðrar menningarstofnanir.

„Við erum búin að vera með þrjár sýningar í gangi, búin að frumsýna þrjú verk - Upphaf, Kópavogskróniku og Kardemommubæinn og við höfum verið að sýna það þétt en auðvitað með þessum takmörkunum, og það hefur bara afskaplega gengið vel,“ segir Magnús Geir.

Búið var að skipuleggja sýningar mjög þétt næstu vikur og mánuði. „Það er búin að vera mikil sala og mikill áhugi og til dæmis búið að selja 20 þúsund miða á Kardemommubæinn.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×