Innlent

Samkomur takmarkaðar við 20 manns

Birgir Olgeirsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnti rétt í þessu að samkomur yrðu takmarkaðar við 20 manns. Þetta kom fram í máli ráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi þar sem farið var yfir tillögur sóttvarnalæknis um hertar aðgerðir.

Katrín sagði að heilbrigðisráðherra muni fara yfir tillögurnar og auglýsingin verði birt á morgun.

Líkamsræktarstöðvar verða lokaðar, barir verða lokaðir og einnig spilasalir. Sundlaugar verða áfram opnar en með færri gestum.

Katrín sagðist bjartsýn á að aðgerðirnar muni stemma stigu við útbreiðslu faraldursins. Þá verði að koma í ljós hvort boðað verði til upplýsingafundar á morgun. 

Í auglýsingunni verða sérreglur um útfarir og aðrar undantekningar en forsætisráðherra fór ekki nánar út í það.

Fyrirkomulag um grunnskóla og leikskóla verður að mestu óbreytt. Auglýsing heilbrigðisráðherra um samkomutakmarkanir verður birt á morgun og tekur gildi strax eftir helgi. Hún verður í gildi í að minnsta kosti tvær vikur.

Viðtal við Katrínu fyrir utan Ráðherrabústaðinn í dag, þar sem hún gerir grein fyrir auglýsingunni, má sjá hér fyrir neðan.

61 greindist með veiruna innanlands í gær. Af þeim var einungis þriðjungur í sóttkví. Sóttvarnalæknir sagði við fréttastofu í morgun að hann hefði áhyggjur af því að faraldurinn væri kominn í veldisvöxt, en hann hefur hingað til verið í línulegum vexti. Hann sagði ljóst að grípa þyrfti til hertra aðgerða. 

Mikið álag er á Landspítalanum en forstjórinn hefur sagt álagið meira í faraldrinum nú en í vor. Þar spilar inn í spítalinn hefur ekki náð að útskrifa sjúklinga á hjúkrunarheimili líkt og í vor og að samfélagið haldi áfram af fullum krafti, ólíkt því sem var í vor þegar samkomubannið var sem harðast.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Margir í partíum án þess að passa sig

Íslendingar eru búnir að halda of mikið af samkvæmum á undanförnum vikum. Mörg þessara samkvæma hafa leitt til dreifingar nýju kórónuveirunnar, sem veldur Covid-19.

61 greindist og 39 ekki í sóttkví

61 greindist með kórónuveiruna innanlands í gær. 22 þeirra sem greindust voru í sóttkví við greiningu, 39 ekki.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×