Erlent

Biden ekki með Covid-19

Samúel Karl Ólason skrifar
Hér eru þeir Biden og Trump með eiginkonum sínum Jill og Melaníu, eftir kappræðurnar í vikunni.
Hér eru þeir Biden og Trump með eiginkonum sínum Jill og Melaníu, eftir kappræðurnar í vikunni. AP/Julio Cortez

Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, hefur ekki smitast af Covid-19. Hann fór í skimun í dag eftir að opinberað var að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefði smitast. Þeir tveir deildu sviði í kappræðum sem fram fóru aðfaranótt þriðjudagsins.

Biden sagði frá niðurstöðu skimunarinnar á Twitter nú fyrir skömmu og ítrekaði hann fyrir fólki að notast við persónulegar sóttvarnir.

Eftir að starfsmenn Hvíta hússins komust að því að náinn ráðgjafi Trump hefði smitast, var framboð Biden ekki látið vita. Þess í stað komst Joe Biden að smiti Trump í gegnum fréttir fjölmiðla og fór hann í skimun í kjölfar þess.

Öldungadeildarþingmaðurinn Mike Lee, sem er Repúblikani frá Utah, greindi frá því í dag að hann hefði greinst með Covid-19 og það sagði Ronna McDaniel, framkvæmdastjóri Landsnefndar Repúblikanaflokksins einnig.

Lee var staddur í garði Hvíta hússins á laugardaginn síðasta þegar Trump tilkynnti að hann ætlaði að tilnefna Amy Coney Barrett til Hæstaréttar Bandaríkjanna. Enginn þar var með andlitsgrímu og enginn stundaði nokkurs konar félagsforðun, samkvæmt lýsingum blaðamanna vestanhafs.

Sjá einnig: Grímulausir ráðgjafar og fjölskylda Trump útsett fyrir smiti

Á þriðjudaginn fundaði Lee með Barrett og voru þau í miklu návígi án gríma. Sömuleiðis fundaði hann með Lindsey Graham, sem er einnig öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins og formaður dómsmálanefndar öldungadeildarinnar. Hvorugur þeirra var með grímu.

Mark Meadows, starfsmannastjóri Hvíta hússins, sagði á blaðamannafundi í dag að hann ætti von á því að fleiri smit myndu greinast í Hvíta húsinu.


Tengdar fréttir

Hvað gerist ef Trump verður veikur?

Donald Trump Bandaríkjaforseti er smitaður af Covid-19 og verði hann veikur gæti það haft mikil áhrif á bæði baráttu hans til að ná endurkjöri og stjórn Bandaríkjanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×