Innlent

Vilja reisa styttu af Jóni Páli við Jaka­ból

Atli Ísleifsson skrifar
Jón Páll, sem hefði orðið sextugur í apríl fyrr á þessu ári, varð á sínum tíma fyrsti maðurinn til að vinna keppnina um sterkasta mann heims fjórum sinnum.
Jón Páll, sem hefði orðið sextugur í apríl fyrr á þessu ári, varð á sínum tíma fyrsti maðurinn til að vinna keppnina um sterkasta mann heims fjórum sinnum. Worlds Strongest Man

Hópur úr fjölskyldu kraftlyftinga- og aflraunamannsins Jóns Páls Sigmarssonar hefur óskað eftir heimild hjá til að reisa styttu af Jóni Páli þar sem Jakaból stóð eitt sinn við Þvottalaugarnar í Laugardal.

Borgin úthlutaði á sínum tíma umrætt húsnæði, sem var yfirgefið þvottahús, til kraftlyftingamanna eftir að þeir höfðu verið á hrakhólum með æfingaaðstöðu í borginni, og átti Jón Páll eftir að stíga þar sín fyrstu skref í lóðaþjálfun.

Bréf frá fjölskyldu Jóns Páls var tekið fyrir á fundi menningar-, íþrótta og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar á mánudaginn þar sem samþykkt var að óska eftir umsögn Listasafns Reykjavíkur vegna hugmyndarinnar.

Tveggja metra stytta

Hópurinn útlistar að hugmyndin gangi út á að styttan yrði reist á steyptum ferhyrndum stalli, um tveir metrar á hvorn veg, og um hálfan metra upp úr jörðu. Styttan sjálf yrði úr bronsi og um tveir metrar á hæð. Þá yrði bronsskjöldur á stallinum með stuttu æviágripi um Jón Pál.

Í bréfi styttuhópsins segir ennfremur að hópurinn taki fulla ábyrgð á öllum kostnaði og framkvæmdum við að reisa styttuna, sem og viðhaldi hennar.

Jón Páll, sem hefði orðið sextugur í apríl fyrr á þessu ári, varð á sínum tíma fyrsti maðurinn til að vinna keppnina um sterkasta mann heims fjórum – árið 1984, 1986, 1988 og 1990. Jón Páll lést fyrir aldur fram árið 1993, 33 ára að aldri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×