Erlent

Laun­dóttir Alberts II orðin prinsessa

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Delphine Boël prinsessa af Belgíu. 
Delphine Boël prinsessa af Belgíu.  Getty

Belgíska listakonan Delphine Boël, sem barist hefur fyrir því undanfarin sjö ár fyrir dómstólum að fá það viðurkennt að Albert II, fyrrverandi konungur Belgíu, sé faðir hennar var í dag krýnd sem prinsessa af Belgíu.

Áfrýjunardómstóll í Belgíu dæmdi svo í dag að Boël skyldi titluð „prinsessa af Belgíu,“ í kjölfar þess að DNA-próf leiddi það í ljós að konungurinn fyrrverandi væri í raun faðir hennar.

Niðurstöður DNA-prófsins lágu fyrir í janúar og batt það endi á áralangar þrætur um raunverulegt faðerni Boël. Konungurinn hafði, þar til niðurstöður prófsins lágu fyrir, þrætt fyrir faðernið í um áratug en Boël fullyrti fyrst í viðtali árið 2005 að konungurinn væri faðir sinn.

Móðir Boël, Sybille de Selys Longchamps barónessa, fullyrðir að hún hafi átt í ástarsambandi við Albert II konung í átján ár, frá 1966 til 1984, það er nokkru áður en hann tók við krúnunni árið 1993. Sögur um að konungurinn hafi eignast barn utan hjónabands komu fyrst fram opinberlega í ósamþykktri ævisögu um Paolu drottningu árið 1999.

Albert II afsalaði sér krúnunni árið 2013 og eftir það missti hann friðhelgi. Síðan þá hefur Boël barist fyrir því fyrir dómstólum að fá faðerni sitt viðurkennt.

Auk þess að fá prinsessutitilinn mun Boël breyta eftirnafni sínu í eftirnafn föður síns, Saxe-Cobourg. Börnin hennar tvö, Josephine og Oscar munu einnig fá konunglega titla og verða héðan af ávörpuð sem „yðar konunglega tign.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×