Fótbolti

Hólmar Örn og Arnór Ingvi komust ekki í riðla­keppni Evrópu­deildarinnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hólmar Örn (t.v.) var í byrjunarliði Rosenborg er liðið tapaði á heimavelli fyrir PSV.
Hólmar Örn (t.v.) var í byrjunarliði Rosenborg er liðið tapaði á heimavelli fyrir PSV. Vísir/Getty

Íslensku landsliðsmennirnir Hólmar Örn Eyjólfsson og Arnór Ingvi Traustason eru úr leik í forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu. Var þetta síðasta umferð forkeppninnar en sigurvegarar kvöldsins fara í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Hólmar Örn var í byrjunarliði Rosenborg sem fékk hollenska stórliðið PSV í heimsókn á Lerkendal-vellinum í Þrándheimi. Hólmar Örn gat þó ekki komið í veg fyrir 0-2 tap heimamanna í dag. 

Eran Zahavi kom PSV um miðbik fyrri hálfleiks og hann lagði svo upp síðara mark liðsins. Það skoraði Cody Gakpo.

Rosenborg lagði Breiðablik á leið sinni í umspili en Blikar töpuðu 4-2 á þessum sama velli fyrr í sumar. 

Arnór Ingvi hóf leik Malmö gegn Granada á varamannabekknum. Hann kom inn á er tuttugu mínútur voru eftir. Staðan var þá 2-1 Granda í vil en leiknum lauk með 3-1 sigri gestanna.

Mikill hiti var í leiknum undir lok leiks en gestirnir frá Spáni fengu þrjú gul spjöld í uppbótartíma.

Jo Inge Berget skoraði mark Malmö í leiknum. Liðið getur nú einbeitt sér eingöngu að sænsku deildinni þar sem það trónir á toppnum er átta umferðir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×