Fótbolti

Áhorfendur leyfðir á landsleikjunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslensku strákarnir fá stuðning úr stúkunni í landsleikjunum þremur síðar í þessum mánuði.
Íslensku strákarnir fá stuðning úr stúkunni í landsleikjunum þremur síðar í þessum mánuði. vísir/daníel

Knattspyrnusamband Evrópu hefur tilkynnt að takmarkaður fjöldi áhorfenda megi vera á landsleikjum í þessum mánuði.

Hámarksfjöldi áhorfenda á hverjum leik miðast við 30 prósent af heildarsætafjölda hvers leikvangs. Það verður þó gert með hliðsjón af hámarksfjölda samkvæmt lögum og reglum í hverju landi, auk þess sem þessi heimild gerir ráð fyrir umfangsmiklum sóttvörnum á hverjum leikvangi samkvæmt nýútgefnum reglum UEFA.

Ekki verður því leikið fyrir luktum dyrum þegar Ísland tekur á móti Rúmeníu 8. október í umspili um sæti á EM og á móti Danmörku og Belgíu 11. og 14. október í Þjóðadeildinni.

Í frétt á heimasíðu Knattspyrnusambands Íslands kemur fram að KSÍ vinni að undirbúningi leikjanna og útfærslu sóttvarnarhólfa í samræmi við fjöldatakmarkanir. Frekari upplýsinga um miðasölu, aðgengismál, sóttvarnir og fleira er að vænta.

Ekki er gert ráð fyrir stuðningsmönnum gestaliða á landsleikjum samkvæmt tilmælum UEFA.

Laugardalsvöllur tekur 9.800 manns í sæti og því gætu tæplega 3000 íslenskir áhorfendur mætt á leikina síðar í þessum mánuði. Ljóst er að hólfa þarf völlinn niður en núverandi samkomutakmarkanir á Íslandi miðast við 200 manns.

Íslenska kvennalandsliðið mætir því sænska 27. október. Leikurinn fer fram á Gamla Ullevi í Gautaborg. Hann tekur 15 þúsund manns í sæti og því gætu 5.000 manns mætt á leikinn sem er gríðarlega mikilvægur í baráttunni um sæti á EM 2022.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.