Fótbolti

KSÍ endurgreiðir miðahöfum

Sindri Sverrisson skrifar
Stemningin verður ekki svona þegar Ísland mætir Rúmeníu 8. október. Áhorfendur verða ekki leyfðir nema að eitthvað mikið breytist á allra næstu dögum.
Stemningin verður ekki svona þegar Ísland mætir Rúmeníu 8. október. Áhorfendur verða ekki leyfðir nema að eitthvað mikið breytist á allra næstu dögum. VÍSIR/DANÍEL

Útséð virðist með það að áhorfendur verði leyfðir á leik Íslands við Rúmeníu á Laugardalsvelli, í umspilinu um sæti á EM karla í fótbolta.

KSÍ endurgreiðir í dag þeim sem keypt höfðu miða á leikinn. Þetta staðfesti Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, við Vísi.

Klara sagði að engar staðfestingar hefðu borist frá UEFA varðandi áhorfendamál og að tíminn væri orðinn knappur. Áhorfendabannið sem UEFA setti á fyrir landsleikina í byrjun september væri því enn í gildi og óvíst hvenær það breyttist.

Klara benti á að auk þess væru samkomutakmarkanir í gildi á Íslandi, upp á 200 manns. Þó að hægt væri að skipta Laugardalsvelli upp í nokkur hólf gæti reynst snúið að koma fyrir þó ekki væri nema 1.000 áhorfendum, jafnvel þó að UEFA heimilaði það.

Umspilsleikurinn við Rúmena átti upphaflega að fara fram 26. mars. Miðar á leikinn seldust upp sama dag og þeir voru settir í sölu. Leiknum var frestað vegna kórónuveirufaraldursins, sem og Evrópumótinu sjálfu sem frestað var um eitt ár eða til sumarsins 2021. Hægt var að sækja um endurgreiðslu í ákveðinn tíma eftir að leiknum var frestað.

Leikurinn fer fram 8. október og sigurliðið mun mæta Búlgaríu eða Ungverjalandi á útivelli í nóvember, í úrslitaleik um sæti á EM.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×