Forsætisráðherra hefur boðað til óformlegs blaðamannafundar í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu klukkan 11. Á fundinum verða ræddar „aðgerðir stjórnvalda til stuðnings lífskjarasamningunum,“ að því er fram kemur í tilkynningu. Sýnt verður beint frá fundinum hér á Vísi og á sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Vísi.
Alvarleg staða er komin upp á vinnumarkaði en verkalýðshreyfinguna og Samtök atvinnulífsins greinir á um hvort forsendu lífskjarasamningins séu brostnar. Atkvæðagreiðslu SA um uppsögn samningsins, sem átti að hefjast í gær, var frestað til hádegis í dag. Fundað var stíft um stöðu mála í gær og líklegt þótti að ríkisstjórnin hygðist kynna aðgerðir til að bregðast við stöðunni í dag.
Uppfært: Hér má sjá upptöku af fundinum í heild sinni. Neðar í fréttinni er textalýsing frá fundinum.
Verði af atkvæðagreiðslu aðildarfyrirtækja SA í dag munu niðurstöður liggja fyrir á hádegi á morgun, miðvikudag. Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA hefur ekki viljað gefa upp hvað gæti falist í aðgerðum stjórnvalda.
Drífa Snædal forseti ASÍ sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að frestun á launahækkunum komi ekki til greina. Ekki sé eðlilegt að kjarasamningur launafólks séu notaðir í vegferð atvinnurekenda gagnvart stjórnvöldum.