Fótbolti

Segir að Liverpool þurfi að finna annan markvörð og kallar Adrian „rusl“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Adrian í sárum í leiknum gegn Atletico Madrid.
vísir/getty

David Maddock, blaðamaður Daily Mirror, segir að meiðsli Alisson hafi kostað Liverpool sæti í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar eftir mistök varamarkvarðarins Adrian í 16-liða úrslitunum gegn Atletico Madrid.

Adrian gerði afdrífarik mistök þegar Liverpool tapaði gegn Atletico Madrid en Maddock segir að rosalegir yfirburðir Liverpool í leiknum hefðu átt að koma þeim áfram.

„Diego Simeone var að brjálast því Liverpool var að ganga frá liðinu hans. Liverpool átti 37 skot á markið og það er eins og þeir voru að spila gegn utandeildarliði. Þeir hefðu átt skilið að skora sjö eða átta mörk,“ sagði David Maddock. Hann hélt áfram að tala um Adrian:

„Þeir skoruðu tvö mörk, voru yfir og svo hleypti markvörðurinn einu inn. Verstu mistök sem þú sérð. Hann var rusl. Til þess að vera hreinskilinn þá á hann sökina á því sem hefur verið að gerast síðustu vikur. Ég hélt að ef Liverpool ætti að detta út þá væri það vegna meiðsla Alisson og það kom svo í ljós.“

Maddock segir að yfirburðir Liverpool hafi verið rosalegir og það hefði átt að nægja en þá hafi veikleiki Liverpool komið í ljós.

„Liverpool gerði nóg til þess að vinna leikinn og þeir gerðu nóg til þess að vinna fjóra leiki. Síðan fengu þeir örlögin í andlitið. Adrian gerði ágætlega fyrr á leiktíðinni en síðan hefur hann verið misjafn og ég héld að Klopp hafi séð að hann er veikleiki Liverpool.“

„Alisson hefur meiðst tvisvar á leiktíðinni og það er ekki gott. Ég held að þegar Liverpool fari á markaðinn í sumar, þá munu þeir fara og fá sér nýjan markvörð. Ég er nokkuð viss um það,“ sagði Maddock.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×