Erlent

Netanjahú sagður með óhreinan þvott í pokahorninu

Kjartan Kjartansson skrifar
Jakkaföt Netanjahú voru vel þvegin þegar hann hitti Donald Trump Bandaríkjaforseta í Washington í síðustu viku og það þrátt fyrir að hann hafi ekki komið með fullar töskur af óhreinum þvotti fyrir gestgjafa sína til að þvo í það skiptið.
Jakkaföt Netanjahú voru vel þvegin þegar hann hitti Donald Trump Bandaríkjaforseta í Washington í síðustu viku og það þrátt fyrir að hann hafi ekki komið með fullar töskur af óhreinum þvotti fyrir gestgjafa sína til að þvo í það skiptið. Vísir/EPA

Ferðatöskur Benjamíns Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, og einkonu hans eru iðulega sagðar fullar af óhreinum þvotti þegar þau koma í opinberar heimsóknir til Bandaríkjanna. Þar eru hjónin sögð láta gestgjafa sína þvo fyrir sig þvottinn ókeypis.

Bandarískir embættismenn, bæði opinberir starfsmenn og pólitískt skipaðir, segja Washington Post að þvottaþjónustan standi öllum erlendum þjóðarleiðtogum til boða en þeir nýti sér hana takmarkað þar sem þeir staldra að jafnaði stutt við. Öðru máli gegnir þó um Netanjahú-hjónin.

„Netanjahú-hjónin eru þau einu sem kom í raun og veru með ferðatöskur fullar af óhreinum þvotti fyrir okkur að þvo. Eftir nokkrar ferðir varð ljóst að þetta var með ráðum gert,“ segir einn embættismaður sem vildi ekki koma fram undir nafni.

Ísraelskir embættismenn segja fullyrðingarnar „fjarstæðukenndar“ og neita því að forsætisráðherrahjónin ofnoti þvottaþjónustuna í Bandaríkjunum.

Netanjahú var ákærður fyrir spillingu í opinberu embætti en máli bíður enn meðferðar í hæstarétti Ísraels. Árið 2016 tókst honum að koma í veg fyrir að upplýsingar um kostnaður vegna fatahreinsunar sem hann lét skattgreiðendur standa straum af yrðu gerðar opinberar á grundvelli upplýsingalaga.

Fjölmiðlar í Ísrael greindu nýverið frá því að Netanjahú og frú hefðu tekið með sér ellefu ferðatöskur í eins dags ferð til Portúgals í desember. Skrifstofa forsætisráðherrans fullyrti að í þeim hefðu verið hlutir sem hann þurfti á að halda starfs síns vegna, ekki óhreinar nærbrækur hans.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.