Innlent

Grípa til aðgerða vegna fjölda smita í Stykkishólmi

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Gripið hefur verið til aðgerða í Stykkishólmi til að draga úr útbreiðslu kórónuveirunnar. Sjö hafa greinst með veiruna í Stykkishólmi en ellefu á Vesturlandi.
Gripið hefur verið til aðgerða í Stykkishólmi til að draga úr útbreiðslu kórónuveirunnar. Sjö hafa greinst með veiruna í Stykkishólmi en ellefu á Vesturlandi. Vísir/Jóhann K

Sjö eru nú í einangrun með kórónuveiruna í Stykkishólmi en á Vesturlandi öllu eru ellefu með veiruna. Alls voru 18 í sóttkví í Stykkishólmi í gær en búist er við töluverðri fjölgun fólks í sóttkví eftir því sem störfum smitrakningarteymis vindur fram í dag. Sem stendur eru 93 í sóttkví á Vesturlandi. Umfangsmeiri skimun er í nú í undirbúningi í Stykkishólmi.

Viðbragðsteymi Stykkishólmsbæjar fundaði með sóttvarnaryfirvöldum á Vesturlandi í dag vegna aukningar kórónuveirutilfella. Þetta kemur fram á vefsvæði bæjarins.

Á fundinum var ákveðið að grípa til varúðarráðstafana vegna fjölgunar smita, þær eru þó tímabundnar.

Grunnskólinn í Stykkishólmi tekur, frá og með morgundegi, upp hólfaskiptingu og þurfa nemendur í 1. -7. bekk að koma með hádegismat að heiman. Skólastarf hefst kl. 10:00 þar sem töluverðar tilfæringar þurfa að eiga sér stað innan stofnunarinnar.

Þá verður einnig tekin upp hólfaskipting á Leikskólanum í Stykkishólmi en starfstími verður óbreyttur.

Lokað hefur verið fyrir heimsóknir á dvalarheimili aldraðra. Heimsóknarbann á einnig við um búseturéttaríbúðir. Ráðhús Stykkishólmsbæjar hefur verið lokað tímabundið fyrir gestum og þá mun starfsemi félagsmiðstöðvarinnar leggjast af fram yfir helgi. Íbúum er bent á að fylgjast vel með tilkynningum frá skólum og stofnunum Stykkishólmsbæjar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×