Innlent

Biðlar til fólks að takmarka eins og mögulegt er hverja það hittir

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Margrét Helga Erlingsdóttir skrifa
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir að það komi enn dálítið á óvart hversu margir þurfi að fara í sóttkví í kringum hvern einstakling sem greinist með kórónuveiruna.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir að það komi enn dálítið á óvart hversu margir þurfi að fara í sóttkví í kringum hvern einstakling sem greinist með kórónuveiruna. Vísir/Vilhelm

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir fjölda kórónuveirusmita innanlands í gær á pari við það sem hann bjóst við.

Hann bendir á að metfjöldi sýna hafi verið tekinn en segir að það komi enn pínulítið á óvart hversu margir geta farið í sóttkví í kringum hvern einstakling sem greinist. Hann biður fólk um að takmarka eins og mögulegt er þá hópa sem það er að hitta.

Alls greindust 57 manns með kórónuveiruna innanlands í gær en á sama tíma hafa aldrei verið tekin fleiri sýni.

Alls voru tekin 2.798 einkennasýni hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og Íslenskri erfðagreiningu, 1.291 sýni var tekið í annarri skimun hjá ÍE og 436 sýni voru tekin við sóttkvíar- og handahófsskimun.

Þetta gera rúmlega 4.500 sýni og með þeim 640 sýnum sem tekin voru á landamærunum fer fjöldinn yfir 5.000.

Víðir segir búið að lækka þröskuldinn varðandi sýnatöku og einkenni og að mikil hvatning hafi verið til fólks sem er með einkenni að fara í sýnatöku. Mikið af pestum sé í gangi og það takist að ná til fleiri einstaklinga.

„Það eru jákvæðar fréttir að því leytinu til að við erum búin að ná þessum einstaklingum og koma þeim í einangrun, á sama tíma eru alveg gríðarlega margir sem þurfa að fara í sóttkví tengt þessum einstaklingum og það kemur manni ennþá pínulítið á óvart hversu margir geta farið í sóttkví í kringum einn einstakling þegar við erum núna í þriðju bylgju og komin á aðra viku í það að hvetja fólk til að fara mjög varlega,“ segir Víðir og bætir við:

„Skilaboð okkar inn í daginn eru að fólk takmarki eins og það geti þá hópa sem það er að hitta og skoði hvort það sem fólk er að gera þurfi raunverulega að fara fram með því að hittast eða hvort fólk getur gert það með öðrum leiðum, eins og við höfum verið að tala um með vinnustaði, að þeir fari í heimavinnu eins og hægt er.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.