Innlent

Ekki þótti tilefni til að sekta frönsku ferðamennina

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Keflavíkurflugvöllur og Leifsstöð Fáir á ferli og flugvélum lagt vegna samkomubanns víða um heim vegna Covid-19
Keflavíkurflugvöllur og Leifsstöð Fáir á ferli og flugvélum lagt vegna samkomubanns víða um heim vegna Covid-19 Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Frönsku ferðamennirnir tveir, sem tengdir eru við mörg tilfelli kórónuveirunnar sem greinst hafa hér á landi síðustu daga, brutu ekki einangrun. Þá þótti ekki ástæða til að sekta ferðamennina. Þetta kemur fram í svari almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra við fyrirspurn fréttastofu.

Ferðamennirnir komu hingað til lands um miðjan ágúst. Þeir greindust síðar með afbrigði veirunnar sem hefur verið ráðandi í nýsmituðum innanlands undanfarna daga. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sagt að svo virðist sem ferðamennirnir hafi farið í einangrun en ekki fylgt öllum sóttvarnareglum.

Fram kemur í svari Jóhanns K. Jóhannssonar upplýsingastjóra almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra við fyrirspurn fréttastofu að ferðamennirnir tveir hafi verið í húsnæði á eigin vegum á meðan stuttri dvöl þeirra hér á landi stóð.

Þegar fólkið hafi greinst með veiruna hafi málið verið unnið í samvinnu við það. Ferðamennirnir hafi hins vegar, vegna vankunnáttu, ekki fylgt sóttvarnaráðstöfunum til hins ítrasta. Málið hafi verið „leyst með þeim“ þar til þeir fóru úr landi. Fólkið hafi jafnframt ekki brotið einangrun og jafnframt hafi ekki þótt ástæða til að beita sektum vegna þeirra afskipta sem lögregla hafði af því.

„Beiting leiðbeininga og tilmæla hefur reynst vel í afskiptum af þeim sem ekki fylgja öllum reglum. Sektum er ekki beitt nema rík þörf sé á,“ segir jafnframt í svari Jóhanns.

Þeir sem brjóta sóttvarnareglur geta átt yfir höfði sér 50-250 þúsund króna sekt. Ef reglur um einangrun eru brotnar þá er hægt að sekta viðkomandi um 150-500 þúsund krónur eftir alvarleika brotsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.