Innlent

Hættustig á Landspítalanum vegna smita meðal starfsfólks

Samúel Karl Ólason skrifar
Ekki er búist við skerðingu á þjónustu við sjúklinga að svo stöddu.
Ekki er búist við skerðingu á þjónustu við sjúklinga að svo stöddu. Vísir/Vilhelm

Viðbragðsstjórn og farsóttarnefnd Landspítalans hafa ákveðið að færa spítalann á hættustig vegna smita meðal starfsfólks spítalans. Annars vegar er um smit í skurðlækningaþjónustu að ræða og hins vegar í Skaftahlíð 24, þar sem skrifstofur og kennslurými eru til húsa.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Landspítalanum þar sem segir að umfangsmiklar skimanir fyrir Covid-19 muni fara fram í dag og gert sé ráð fyrir að 200 starfsmenn verði í úrvinnslusóttkví þar til niðurstöður liggja fyrir.

Hluti þeirra verður í hefðbundinni sóttkví.

Ekki er búist við skerðingu á þjónustu við sjúklinga að svo stöddu og er unnið að endurskipulagningu til að tryggja hana.

Í yfirlýsingunni segir að ákvörðunin feli í sér nokkrar breytingar.

Í fyrsta lagi sé nú algjör grímuskylda á öllum starfsstöðvum Landspítala, nema þegar borðað er, og sömuleiðis skal halda tveggja metra fjarlægðarmörk. Innliggjandi sjúklingar eru undanskildir grímuskyldu.

Allir fundir starfsfólks munu fara fram með rafrænum hætti, nema vegna brýnnar nauðsynjar og í þeim tilfellum er grímuskylda í gildi.

Starfsfólk sem getur unnið að heiman mun gera það.

Sjúklingar mega ekki fara í leyfi og aðeins einn gestur getur heimsótt hvern sjúkling á dag. Allir gestir þurfi þar að auki að bera grímur.

Á spítalanum eru nú ríflega 200 sjúklingar í eftirliti á Covid-19 göngudeild og 2 sjúklingar liggja á spítalanum vegna Covid-19 sýkingar.

LANDSPÍTALI FÆRÐUR Á HÆTTUSTIG VEGNA COVID-19-SMITA MEÐAL STARFSFÓLKS Á fundi viðbragðsstjórnar og farsóttarnefndar...

Posted by Landspítali on Sunday, 20 September 2020


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×