Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, segir þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins hafna. Smitin sem greinst hafi frá því á fimmtudag hafi farið langt út fyrir spár um aðra bylgju kórónuveiruteymisins hjá háskólanum.
„Veiran hefur hegðað sér í samræmi við spá í næstum tvo mánuði. Hún gerði það líka í fyrstu bylgju frá 28. febrúar inn í miðjan maí. En nú hefur hún stungið okkur laglega af sem þýðir að það hefur eitthvað mikið breyst,“ skrifar Thor í færslu á Facebook.

Hann segir að nýju smitin séu nú langt út fyrir myndina frá því á fimmtudag og komist ekki einu sinni inn á spálíkanið. Þá þurfi ekki mörg smit til að koma af stað bylgju. Hvert eitt og einasta sem náist að temja með sóttkví og smitvörnum telji.
„Samskipti milli fólks í upphafi skólaárs eru e.t.v. með öðrum takti. Við höfum ekki getað tekið svoleiðis vísbendingar inn í líkan enda þyrftum við þá daglega vöktun á samskiptum í þjóðfélaginu. Eflaust allt hægt en kannski viljum við það ekkert endilega,“ skrifar hann.
Hann segir að nú þurfi að bíða í nokkra daga til þess að sjá hvert þessi bylgja stefni. Vonandi sé svo hægt að kynna spá um framhaldið eftir viku en alveg eins og í fyrstu og annarri bylgju þurfi teymið nokkra daga til að meta aðstæður og búa til spá.
„Hún er ögrandi þessi veira en þetta er ekkert öðruvísi verkefni,“ segir hann.