Fótbolti

Draumaupphaf Sveindísar | „Ekkert súr ef hann leyfir mér ekki að byrja“

Sindri Sverrisson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir skorar annað tveggja marka sinna gegn Lettlandi í kvöld.
Sveindís Jane Jónsdóttir skorar annað tveggja marka sinna gegn Lettlandi í kvöld. VÍSIR/VILHELM

„Ég fékk að vita það fyrir æfinguna í gær að ég yrði í byrjunarliðinu. Mér leið bara mjög vel inni á vellinum. Stelpurnar hafa tekið vel á móti manni og þær stýra liðinu vel, og þess vegna leið mér svona vel,“ sagði hin 19 ára Sveindís Jane Jónsdóttir eftir fyrsta A-landsleik sinn í kvöld.

Sveindís átti draumaleik því hún skoraði tvö marka Íslands í 9-0 sigri á Lettlandi, í undankeppni EM.

„Ég átti bara að spila minn leik þó að við höfum lagt leikinn aðeins öðruvísi upp en við gerum í Breiðabliki. Ég spilaði bara minn leik með þeim áherslum sem þjálfararnir hafa sett. Það var mjög gaman að spila og ég fékk góða þjónustu – góða krossa. Það var gott að geta klárað þetta svona,“ sagði Sveindís.

Hefði viljað hafa fjölskylduna í stúkunni

Ísland var 6-0 yfir í hálfleik og fylgdi því eftir með þremur mörkum í seinni hálfleiknum:

„Það gekk svo vel í fyrri hálfleik að við ákváðum að halda bara áfram því sama í seinni hálfleik. Tempóið datt þó aðeins niður en það er allt í góðu, við vorum með þetta í höndunum.“

Næst á dagskrá er leikur við Svíþjóð, bronslið HM í fyrra, á Laugardalsvelli næsta þriðjudag:

„Þetta verða tveir mjög ólíkir leikir. Við erum ekki byrjuð að undirbúa okkur fyrir þann leik og byrjum á því á morgun,“ sagði Sveindís sem gerir sterkt tilkall til sætis í byrjunarliðinu gegn Svíum með framimstöðu sinni í kvöld og í allt sumar:

„Ég tek því alveg [sæti í byrjunarliðinu] en ég verð nú ekkert súr ef að hann [Jón Þór Hauksson landsliðsþjálfari] leyfir mér ekki að byrja þann leik líka. Ég vona bara það besta,“ sagði Sveindís.

Keflvíkingurinn spilaði sinn fyrsta A-landsleik í kvöld en það gerði hún án þess að áhorfendur væru í stúkunni, vegna Covid-reglna UEFA. Hún viðurkennir að það hafi verið sérstakt:

„Já, svolítið. Maður hefði viljað hafa áhorfendur og fjölskylduna sína í stúkunni. En þetta var allt í lagi og örugglega margir sem horfðu á leikinn í sjónvarpinu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×