Fótbolti

Rúnar úr leik og Ísland færist enn neðar

Sindri Sverrisson skrifar
Rúnar Már Sigurjónsson og félagar í Astana léku í riðlakeppni Evrópudeildarinnar á síðustu leiktíð og mættu meðal annars Manchester United.
Rúnar Már Sigurjónsson og félagar í Astana léku í riðlakeppni Evrópudeildarinnar á síðustu leiktíð og mættu meðal annars Manchester United. vísir/getty

Rúnar Már Sigurjónsson og félagar í Astana eru úr leik í Evrópudeildinni í fótbolta eftir tap á heimavelli gegn Buducnost frá Svartfjallalandi, 1-0. Tapið gerir íslenskum félagsliðum erfitt fyrir.

Eins og fram hefur komið mun Ísland missa eitt af fjórum sætum sínum í Evrópukeppnum félagsliða karla, fari svo að KR tapi gegn Flora í Eistlandi í dag. Þá yrði nefnilega Wales komið upp fyrir Ísland á styrkleikalista UEFA, og Ísland komið niður í 51. sæti af 55 þjóðum Evrópu.

Með sigri Buducnost er Svartfjallaland sömuleiðis komið upp fyrir Ísland sem þar með er í 52. sæti. Aðeins Eistland, Andorra og San Marínó eru neðar.

Það er því allt undir hjá KR-ingum í Eistlandi en leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Esport í opinni dagskrá.

KR getur með sigri á Flora mögulega komið Íslandi upp fyrir bæði Wales og Svartfjallaland, en tapi liðið fær Ísland aðeins þrjú sæti í Evrópukeppni leiktíðina 2022-23. Það þýðir að aðeins Íslandsmeistarar, bikarmeistarar og liðið í 2. sæti Pepsi Max-deildarinnar á næstu leiktíð fengju Evrópusæti. Íslandsmeistararnir þyrftu auk þess að fara í sérstaka forkeppni fyrir Meistaradeildina, sem ein fjögurra neðstu þjóða Evrópu.

Rúnar, sem missti af landsleikjum Íslands fyrr í þessum mánuði vegna meiðsla, lék allan leikinn í dag. Astana hefur komist í riðlakeppni Evrópudeildarinnar eða Meistaradeildarinnar á síðustu fimm leiktíðum, og einu sinni komist í 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar eða árið 2018.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×