Innlent

Helga Vala býður sig fram til vara­for­manns Sam­fylkingarinnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar.
Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar. Vísir/vilhelm

Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar hefur tilkynnt um framboð sitt til varaformanns flokksins. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu Helgu Völu nú í morgun en hún tilkynnti flokkssystkinum sínum um framboð sitt í gærkvöldi. Það stefnir því í varaformannsslag á landsþingi Samfylkingarinnar í nóvember en Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi flokksins og sitjandi varaformaður sækist eftir endurkjöri.

„Ég mun á landsfundi gefa kost á mér í forystu Samfylkingarinnar og býð fram krafta mína í embætti varaformanns flokksins. Hlutverk varaformanns er afar mikilvægt, ekki síst að rækta hópinn, leiða flokksfólk um allt land saman í samstarfi við formann flokksins og búa til þá einstöku liðsheild sem mun skila okkur að settu marki. Stjórnmál eru hópverkefni þar sem enginn einn er merkilegri en annar heldur hver hlekkur með sitt hlutverk. Það er þetta verkefni sem mig langar að taka að mér að leiða og vonast eftir stuðningi ykkar í,“ segir Helga Vala í færslu sinni.

Landsþing Samfylkingarinnar, þar sem kosið verður um forystu flokksins, verður haldið 6. og 7. nóvember næstkomandi. 

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi Samfylkingarinnar hefur gegnt stöðu varaformanns síðan 2017. Hún segir í samtali við Vísi að hún hyggi óhikað á framboð til varaformanns á landsþingi í nóvember og finni fyrir miklum stuðningi. 

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.