Fótbolti

Án átta leikmanna vegna kórónuveiru | Svíum auðveldað verkið fyrir Íslandsför

Sindri Sverrisson skrifar
Markvörðurinn Réka Szocs er meðal þeirra sem duttu út úr ungverska landsliðshópnum. Hér er hún í baráttu við Dagnýju Brynjarsdóttur í 4-1 sigri Íslands gegn Ungverjalandi í fyrra.
Markvörðurinn Réka Szocs er meðal þeirra sem duttu út úr ungverska landsliðshópnum. Hér er hún í baráttu við Dagnýju Brynjarsdóttur í 4-1 sigri Íslands gegn Ungverjalandi í fyrra. VÍSIR/BÁRA

Ungverjaland, sem leikur með Íslandi í riðli í undankeppni EM, verður án átta leikmanna gegn Svíþjóð á morgun vegna tveggja kórónuveirusmita.

Svíar mæta því ekki sterkasta liði Ungverja á morgun, þegar Ísland mætir Lettlandi á Laugardalsvelli, en Ísland tekur svo á móti Svíþjóð næsta þriðjudagskvöld.

Í yfirlýsingu frá ungverska knattspyrnusambandinu segir að tveir leikmenn hafi greinst með kórónuveiruna og að sex leikmenn til viðbótar hafi þurft að fara í sóttkví. Þá drógu tveir leikmenn til viðbótar sig út úr ungverska hópnum svo alls vantar tíu leikmenn sem valdir höfðu verið í síðustu viku. Félagslið leikmanna hafa rétt á að hafna því að landsliðskonur spili leikina nú í september, vegna tímabundinnar reglubreytingar FIFA.

Í hópi þeirra sem missa af leiknum við Svíþjóð, og svo leiknum við Lettlandi í næstu viku, eru þrír leikmenn sem komu við sögu í 4-1 tapi Ungverja gegn Íslendingum fyrir ári síðan. Það eru markvörðurinn Réka Szocs, miðjumaðurinn Petra Kocsán og sóknarmaðurinn Fanni Vágó.

Edina Markó, landsliðsþjálfari Ungverjalands, var með varann á þegar hún tilkynnti landsliðshóp sinn fyrir átta dögum, því hún valdi 23 leikmenn og átta varamenn.

Ungverski hópurinn fór í tvær skimanir fyrir kórónuveirunni áður en hann hélt til Svíþjóðar í gær, og fer aftur í skimun eftir leikinn og við heimkomu til Ungverjalands.

Ungverjaland og Ísland mætast ytra 1. desember þegar undankeppni EM lýkur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.