Íslenski boltinn

„Töffara­skapur“ í Örnu sem er að verða upp­á­halds leik­maðurinn hennar Mistar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Arna Sif Ásgrímsdóttir og stöllur í Þór/KA hafa dregist niður í fallbaráttuna.
Arna Sif Ásgrímsdóttir og stöllur í Þór/KA hafa dregist niður í fallbaráttuna. VÍSIR/BÁRA

Spekingarnir í Pepsi Max mörkum kvenna hrósuðu fyrirliða Þór/KA, Örnu Sif Ásgrímsdóttur, í hástert í þætti gærkvöldsins.

Þór/KA hefur dregist niður í fallbaráttuna og er einungis stigi frá fallsæti eftir 1-1 jafnteflið gegn Þrótti í Laugardalnum fyrr í vikunni en liðið er með ansi ungt og breytt lið í ár.

Helena Ólafsdóttir var með þær Margrét Lára Viðarsdóttir og Mist Rúnarsdóttir í settinu í gær og fóru þær yfir stöðuna á m.a. Örnu Sif.

„Arna er að verða uppáhalds leikmaðurinn minn í þessu móti. Hún er ótrúleg,“ sagði Mist Rúnarsdóttir og Margrét Lára sagði hana ótrúlega í hornspyrnum.

„Ef þú spilar við Örnu Sif og það er hornspyrna þá hugsarðu ekkert um fyrsta boltann heldur ert klár í að pikka upp næstu bolta. Hún er alltaf að fara eiga teiginn.“

Mist segir að leiðtogahæfileikar Örnu séu frábærir.

„Hún er til í allt. Þú þarft að vera rosalegur leiðtogi fyrir þetta nýja Þór/KA lið og hún er svo að standa undir því. Ótrúlega virðingavert í endalausum rútuferðum með litlu stelpunum.“

Margrét Lára tók undir það en þær spiluðu saman í Val tímabilin 2016 og 2017.

„Þetta er svo virðingavert að stelpa sem fór út á sínum tíma og spilaði með Gautaborg, kemur í Val og spilar þar með okkur. Er svo komin í allt annað hlutverk fyrir norðan en er að gera þetta ótrúlega fagmannlega.“

Mist tók svo aftur við boltanum.

„Hún er að taka fólk með sér og er að skila inn stigum og öðru fyrir liðið. Mér finnst það ótrúlegur töffaraskapur í Örnu. Ég verð að gefa henni það.“

Klippa: Pepsi Max mörkum kvenna - Umræða um Örnu Sif

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×