Erlent

Laun­dóttir Alberts II fer fram á sömu réttindi og titla og syst­kinin

Atli Ísleifsson skrifar
Delphine Boël mætti fyrir áfrýjunardómstól í Brussel í morgun.
Delphine Boël mætti fyrir áfrýjunardómstól í Brussel í morgun. Getty

Belgíska listakonan Delphine Boël vonast nú til að dómstóll í landinu muni veita henni sömu réttindi og titla og önnur börn Alberts II, fyrrverandi Belgíukonungs. Konungurinn viðurkenndi í janúar síðastliðnum að hafa á sínum tíma eignast Boël utan hjónabands eftir að hafa þrætt fyrir faðernið í um áratug.

Hin 52 ára Boël hefur nú leitað til áfrýjunardómstóls í Brussel til að fá sínu framgengt.

Móðir Boël, Sybille de Selys Longchamps barónessa, fullyrðir að hún hafi átt í ástarsambandi við Albert II konung í átján ár, frá 1966 til 1984, það er nokkru áður en hann tók við krúnunni árið 1993.

Sögur um að konungurinn hafi eignast barn utan hjónabands komu fyrst fram opinberlega í ósamþykktri ævisögu um Paolu drottningu árið 1999. Boël fullyrti svo fyrst í viðtali árið 2005 að konungurinn væri faðir sinn. 

Albert II afsalaði sér krúnunni árið 2013 vegna heilsubrests.Getty

Albert II afsalaði sér krúnunni árið 2013 og það var fyrst þá – eftir að hann missti friðhelgi – sem Boël leitaði til dómstóla.

Hinn 86 ára Albert II á þrjú önnur börn; Filippus, sem nú er konungur landsins, Laurent prins og Astrid prinsessu.

Lögmaður Alberts segir að það sé ekki dómstóla að veita fólki titilinn „prinsessa“. Slíkt verði einungis gert með konunglegri tilskipun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×