Enski boltinn

Berst við Gylfa um mínútur í vetur og Ancelotti hrósar honum í há­stert

Anton Ingi Leifsson skrifar
Allan verður í treyju númer sex hjá Everton.
Allan verður í treyju númer sex hjá Everton. vísir/getty

Carlo Ancelotti, stjóri Everton, er himinlifandi með að félagið hafi náð krækja í miðjumanninn Allan sem kemur til félagsins frá Napoli.

Napoli hefur í sumar verið mikið orðaður við Everton en á mánudaginn var það svo staðfest að hann hefði skrifað undir þriggja ára samning við félagið.

Þar með mun samkeppnin aukast hjá Gylfa Sigurðssyni en enska úrvalsdeildin hefst á laugardaginn.

„Mér finnst Allan frábær leikmaður sem kemur með orku og gæði inn á miðjuna. Ég þekki hann vel og hann þekkir mig. Stuðningsmennirnir munu elska hann því hann spilar af mikilli ástríðu,“ sagði Ancelotti við heimasíðu Everton.

„Það er frábært að fá hann og hann mun styrkja hópinn. Hann er góður taktískt. Hann er mjög öflugur varnarlega og vinnur marga bolta. Hann er ákafur og því hann er Brasilíumaður getur hann hjálpað til með og án boltans.“

„Ég þakka félaginu og stjórnarmönnunum að sækja hann því hann kemur til með að styrkja okkur. Allan er leiðtogi sem tekur fótboltann alvarlega og er atvinnumaður,“ sagði Ancelotti.

Ítalinn bætti við að lokum að Allan gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir félagið um komandi helgi er liðið mætir Tottenham á útivelli í 1. umferð enska boltans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×