Innlent

Snjó festi á fjallvegum norðaustanlands

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þessi mynd er tekin úr vefmyndavél Vegagerðarinnar á Möðrudalsöræfum um klukkan 6:40 í morgun.
Þessi mynd er tekin úr vefmyndavél Vegagerðarinnar á Möðrudalsöræfum um klukkan 6:40 í morgun.

Fyrsti snjór vetrarins féll í gær á norðaustanverðu landinu. Snjóþekja er á nokkrum fjallvegum í landshlutanum að sögn Teits Arasonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands, en appelsínugul veðurviðvörun hefur verið í gildi síðan í gær á Norðurlandi eystra og Austurlandi að Glettingi vegna norðanhríðar. Snjó festi til dæmis á Mývatns- og Möðrudalsöræfum.

„Snælínan virðist hafa verið á svipuðum slóðum og spár gerðu ráð fyrir, það snjóaði fyrir ofan 300 til 400 metra. Hvort það hefur fennt mikið einhvers staðar kemur í ljós í dag þegar það verður farið að kanna snjóalög nánar og koma kannski fréttir af því frá fólki á fjöllum, til dæmis gangnamönnum,“ segir Teitur.

Þá hafi verið hvasst og slegið í storm (20 til 24 m/s) í nokkrum landshlutum, það er á Snæfellsnesi, Suðurlandi, Suðausturlandi og Austfjörðum. Þar hafi mælst stormur á nokkrum stöðum.

Appelsínugul viðvörun gildir til klukkan níu bæði á Norðurlandi eystra og á Austurlandi að Glettingi.

„Til hádegis er þetta svipað en svo gengur þetta niður smám saman eftir hádegið. Það gengur fyrr niður hér á vestanverðu landinu, það verður orðið skaplegasta veður í kvöld en það verður ennþá strekkingsvindur austan megin og einhver smá úrkoma,“ segir Teitur.

„Bara eins dags pása“

Á morgun er síðan spáð blíðviðri um allt land; hægum vindi, bjartviðri og þá hlýnar aftur í sólinni. Á sunnudag er hins vegar von á sunnanátt og talsverðri rigningu.

„Þannig að það er bara eins dags pása. En það er mjög hlýr loftmassi og rakur þannig að það verður mjög þungbúið og vætusamt á sunnudaginn og allhvass vindur líka.“

Alls staðar er spáð rigningu en í talsverðu magni sunnan-og vestanlands.

„Og það kemur það hlýtt loft með þessu að þar sem hefur fest snjó á hálendi núna, hann ætti að taka upp að mestu leyti.“

Samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra á Akureyri var ekkert um útkall hjá lögreglu og björgunarsveitum í nótt vegna veðursins. Í gærkvöldi hafi komið eitt útkall í tengslum við byggingarsvæði á Akureyri þar sem byggingarefni var laust og farið að fjúka en það var minniháttar.

Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að tvö útköll hafi komið í nótt vegna veðurs. Annars vegar var tilkynnt um farg sem var að fjúka af þaki húss á Seltjarnarnesi sem verið er að gera við.

Þá var tilkynnt um timbur sem var að fjúka af 4. hæða húsi í Vesturbænum en framkvæmdir standa yfir við húsið. Var óskað eftir aðstoð björgunarsveitar því ekki náðist í verktaka.

Veðurhorfur á landinu:

Norðlæg átt 10-18 m/s, en stormur á stöku stað í vindstrengjum, einkum suðaustantil á landinu. Bjartviðri á Suður- og Vesturlandi. Talsverð rigning á Norður- og Austurlandi og slydda eða snjókoma í meira en 300-400 metra hæð yfir sjávarmáli.

Dregur smám saman úr vindi og úrkomu eftir hádegi. Fremur hægur vindur og léttskýjað vestanlands í kvöld, en norðvestan strekkingur austantil á landinu og skýjað en úrkomulítið.

Hiti í dag frá 2 stigum í innsveitum norðaustanlands, upp í 13 stig syðst. Víða hægur vindur og þurrt og bjart veður á landinu á morgun með hita 7 til 13 stig.

Á laugardag:

Norðvestan 8-13 m/s og skýjað á Austurlandi um morguninn, en lægir síðan og léttir til. Annars hæg suðlæg eða breytileg átt á landinu og víða þurrt og bjart veður, en skýjað og lítilsháttar væta með vesturströndinni um kvöldið. Hiti yfir daginn frá 6 stigum á norðausturhorninu, upp í 13 stig sunnanlands.

Á sunnudag:

Gengur í sunnan og suðvestan 10-18 með rigningu og súld, talsverð úrkoma sunnan- og vestanlands. Hiti 8 til 15 stig.

Á mánudag:

Stíf vestlæg átt og skúrir eða rigning, en þurrt suðaustan- og austanlands. Kólnar í veðri.

Á þriðjudag:

Norðlæg eða breytileg átt og dálítil rigning, en þurrt suðaustantil á landinu. Hiti 5 til 12 stig, hlýjast á Suðausturlandi.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×