Innlent

Tjá sig ekki um hvort rekja megi öll mis­tökin til sama starfs­manns

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Í skriflegu svari frá Krabbameinsfélaginu kemur fram að verið sé að flýta skoðun þeirra sýna sem í úrtakinu eru.
Í skriflegu svari frá Krabbameinsfélaginu kemur fram að verið sé að flýta skoðun þeirra sýna sem í úrtakinu eru. Vísir/Sigurjón

Starfsmaður leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins sem gerði mistök við greiningu á leghálssýni fimmtugrar konu greindi að minnsta kosti nokkur af sýnum þeirra þrjátíu kvenna sem hafa verið kallaðar aftur í skoðun vegna rangrar niðurstöðu um frumubreytingar.

Krabbameinsfélagið vill ekki svara því hvort mistökin megi öll rekja til sama starfsmanns.

Verið er að endurskoða um sex þúsund sýni eftir að frumubreytingar í leghálssýni konu um fimmtugt fundust ekki við skoðun árið 2018. Konan hefur nú greinst með ólæknandi krabbamein.

Í skriflegu svari frá Krabbameinsfélaginu segir að verið sé flýta skoðun þeirra 6000 sýna sem eru í úrtakinu og kalla inn konur sem þörf er á að skoða aftur. Verið sé að kalla inn auka starfsfólk.

Þá segir að fjöldi kvenna hafi haft samband við leitarstöðina síðustu daga. Málið hafi vakið upp ótta meðal marga en ekki sé ástæða til að allar konur sem komið hafi í skimun að undanförnu þurfi að óttast slíkt. Krabbameinsfélagið harmi málið og þær alvarlegu afleiðingar sem það hefur þegar haft.

Ekki fengust svör við því hvort mistökin megi öll rekja til eins starfsmanns. Heimildir fréttastofu herma að starfsmaðurinn sem greindi sýni fimmtugu konunnar hafi að minnsta kosti skoðað nokkur sýni þeirra þrjátíu kvenna sem kallaðar hafa verið inn aftur.

Þá hefur Krabbameinsfélagið ekki vilja gefa upp hvort um ræði mistök í skráningu eða rangan úrlestur.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×