Innlent

Harma að gerðardómur hafi ekki leiðrétt launin

Kjartan Kjartansson skrifar
Gerðardómur taldi í greinargerð sinni vísbendingar um að hjúkrunarfræðingar væru vanmetnir í launum. Stjórn Fíh harmar að ekki hafi verið tekið frekara mið af þeim rökum í niðurstöðunni.
Gerðardómur taldi í greinargerð sinni vísbendingar um að hjúkrunarfræðingar væru vanmetnir í launum. Stjórn Fíh harmar að ekki hafi verið tekið frekara mið af þeim rökum í niðurstöðunni. Vísir/Vilhelm

Rúmlega milljarður króna sem gerðardómur ákvað að ríkið skuli fá heilbrigðisstofnunum til að bæta kjör hjúkrunarfræðinga dugar ekki til að leiðrétta launin til samræmis við viðmiðunarstéttir að mati stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Hún harmar að gerðardómur hafi ekki leiðrétt laun hjúkrunarfræðinga.

Greinargerð og niðurstaða gerðardóms sem var skipaður vegna kjaradeilu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) og ríkisins var gerð opinber í gær. Niðurstaðan var að ríkið skuli leggja Landspítalanum til 900 milljónir króna og öðrum heilbrigðisstofnunum 200 milljónir króna til þess að bæta kjör hjúkrunarfræðinga. Samningar hjúkrunarfræðinga hafa verið lausir frá því í lok mars í fyrra.

Í ályktun stjórnar Fíh í dag lýsir hún vonbrigðum með niðurstöðuna. Hún taki ekki mið af rökum sem koma fram í greinargerð sem stjórnin telur að hefði mátt nýta til þess að bæta launasetningu hjúkrunarfræðinga og hækka laun þeirra umtalsvert. Í greinargerðinni kom meðal annars fram að vísbendingar væru um að hjúkrunarfræðingar væru vanmetin kvennastétt í launum og þeim væru ekki greidd laun í samræmi við ábyrgð í starfi.

Með því að láta ríkið veita heilbrigðisstofunum sem hjúkrunarfræðingar starfa fyrir fjármagn til endurskoðunar á stofnanasamningum telur stjórn Fíh að gerðardómur hafi „ýtt verkefninu til baka í nærumhverfið á stofnunum“.

Fjármunirnir muni deilast á nærri 2.700 hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu og telur stjórn Fíh þá ekki duga til þess að leiðrétta laun vanmetinnar kvennastéttar til samræmis við aðrar viðmiðunarstéttir eða tryggja að hjúkrunarfræðingar fái laun í samræmi við ábyrgð í starfi. Stór hluti af fjármagninu sé auk þess þegar bundinn í að tryggja þau sértæku úrræði sem einstaka stofnanir hafa gripið til síðustu ár.

„Mun meira hefði þurft til og harmar stjórn Fíh að gerðardómur hafi ekki stigið það mikilvæga skref að leiðrétta laun hjúkrunarfræðinga,“ segir í ályktun stjórnarinnar.


Tengdar fréttir

Óljóst hve mikið launin hækka

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags hjúkrunarfræðinga, segist rétt vera farin að lesa nýbirtan niðurstöðu gerðardóms í deilu hjúkrunarfræðinga við Ríkið. Hún sér strax ljósa punkta en dregur ekki miklar ályktanir að svo stöddu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×