Innlent

Ríkið reiði fram rúman milljarð til að bæta kjör hjúkrunar­fræðinga

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kjarasamningar hjúkrunarfræðinga og ríkisins hafa verið lausir síðan í mars í fyrra.
Kjarasamningar hjúkrunarfræðinga og ríkisins hafa verið lausir síðan í mars í fyrra. Vísir/vilhelm

Ríkið skal leggja Landspítalanum til alls 900 milljónir króna á ári frá deginum í dag til loka gildistíma kjarasamnings deiluaðila. Fjármagninu skal varið til að bæta kjör hjúkrunarfræðinga. Ríkið skuli á sama hátt leggja öðrum heilbrigðisstofnunum til 200 milljónir á ári á sama tímabili.

Þetta er niðurstaða gerðardóms, sem skipaður var í júlí vegna kjaradeilu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins. Úrskurðurinn var birtur á vef Ríkissáttasemjara í dag.

Kjarasamningar milli Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs urðu lausir 31. mars í fyrra. Ríkissáttasemjari skipaði gerðardóm í byrjun júlí eftir að miðlunartillaga hans í deilunni var samþykkt að lokinni atkvæðagreiðslu meðal hjúkrunarfræðinga í lok júní. Verkfalli á þriðja þúsund hjúkrunarfræðinga var þar með aflýst.

Samningsaðilar höfðu náð samkomulagi um öll meginatriði kjarasamnings utan afmarkaðra atriða launaliðs, þar á meðal um breytt vinnufyrirkomulag í dagvinnu og vaktavinnu. 

Í úrskurði gerðardóms kemur m.a. fram að það sé mat dómsins að vísbendingar séu um að hjúkrunarfræðingar séu vanmetin kvennastétt hvað varðar laun með tilliti til ábyrgðar.

Dómurinn úrskurðar að ríkið skuli leggja Landspítalnum til aukna fjármuni sem skuli ráðstafað til að bæta kjör hjúkrunarfræðinga á grundvelli stofnanasamnings, alls 900 milljónir króna á ári frá 1. september 2020 til loka gildistíma kjarasamnings. Í þessari fjárhæð felist heildarviðbótarframlag til spítalans að meðtöldum launatengdum gjöldum.

Þá skuli ríkið á sama hátt leggja öðrum heilbrigðisstofnunum sínum sem hafa almenna hjúkrunarfræðinga í þjónustu sinni til aukna fjármuni sem skal ráðstafað á grundvelli stofnanasamninga. Alls skal til viðbótar núverandi fjárveitingum leggja stofnununum til sem nemur 200 milljónum króna á ári frá 1. september 2020 til loka gildistíma kjarasamnings.

Þessu viðbótarframlagi ríkisins skuli skipt á milli stofnananna í hlutfalli við þann meðalfjölda stöðugilda hjúkrunarfræðinga sem störfuðu á hverri stofnun fyrir sig árið 2019.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×