Innlent

Ekki stendur til að hætta siglingum þó öllum hafi verið sagt upp

Birgir Olgeirsson skrifar
Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs.
Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs. Vísir/MHH

Öllum starfsmönnum Herjólfs, 68 talsins, var sagt upp störfum í dag. Þar á meðal var framkvæmdastjóranum Guðbjarti Ellert Jónssyni sagt upp.

Guðbjartur segir í samtali við Vísi að Herjólfur ohf. standi frammi fyrir gríðarlegum ófyrirsjáanleika varðandi kórónuveirufaraldurinn og stöðunnar sem er uppi varðandi deilur við ríkið um efndir á þjónustusamningi. Hefur Herjólfur gert rúmlega 400 milljóna kröfu á ríkið vegna styrkja sem félagið telur sig hafa verið hlunnfarið um.

Guðbjartur segir að þó öllu starfsfólki hafi verið sagt upp standi ekki til að hætta siglingum Herjólfs þegar uppsagnafresturinn er liðinn.

„Nei, eðli málsins samkvæmt er þetta eina opna þjóðleiðin. Henni verður ekki lokað,“ segir Guðbjartur.

En hver mun þá sigla skipinu ef þið hafið ekkert starfsfólk?

„Það er verkefnið sem við stöndum frammi fyrir. Við vorum ekki að tilkynna að við ætluðum að hætta siglingum. Við stöndum frammi fyrir því að það er gríðarlegur ófyrirsjáanleiki og við erum að skoða hvernig hægt er að halda hér samgöngum og þjónustu á þessum óvissutímum,“ segir Guðbjartur.

„Þetta var mjög erfið ákvörðun og það er ekkert annað hægt að gera í stöðunni eins og hún er í dag,“ segir Guðbjartur.

Spurður hvort Herjólfur ohf. sé að beita starfsfólki sínu í deilunni við ríkið svarar Guðbjartur því neitandi. Einungis sé verið að bregðast við þeirri miklu óvissu sem er uppi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×