Fótbolti

Forsætisráðherra sendi Söru hamingjuóskir: „Mögnuð íþróttakona og sannkallað afrek“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara Björk lyftir Evrópumeistarabikarnum.
Sara Björk lyftir Evrópumeistarabikarnum. getty/Alex Caparros

Sara Björk Gunnarsdóttir fékk fjölmargar hamingjuóskir á samfélagsmiðlum í gær eftir að hún varð fyrsta íslenskan fótboltakonan til að vinna Meistaradeild Evrópu.

Sara skoraði í 3-1 sigri Lyon á gamla liðinu hennar, Wolfsburg, í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í gær. Mark Söru kom á 88. mínútu en hún lék allan leikinn á miðjunni hjá Lyon.

Eins og áður sagði rigndi hamingjuóskum yfir Söru eftir úrslitaleikinn í gær. Hún fékk m.a. góða kveðju frá Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands.

„Sara Björk Gunnarsdóttir sýnir enn og aftur hvað hún er mögnuð íþróttakona. Sigur í meistaradeild Evrópu með Lyon er sannkallað afrek. Til hamingju @sarabjork18!“ skrifaði Katrín.

Sara lék með Wolfsburg stærstan hluta tímabilsins og varð tvöfaldur meistari í Þýskalandi með liðinu. Þá átti hún stóran þátt í því að Wolfsburg komst í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Sara var í liði Wolfsburg sem tapaði fyrir Lyon, 4-1, í úrslitaleik Meistaradeildarinnar fyrir tveimur árum. Hún fór þá meidd af velli í upphafi seinni hálfleiks.


Tengdar fréttir

Sara Björk skoraði og Lyon er Evrópu­meistari

Sara Björk Gunnarsdóttir er Evrópumeistari í fyrsta sinn eftir að Lyon vann 3-1 sigur á Wolfsburg í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í kvöld. Sara Björk skoraði í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×